Varað við vatnavöxtum og skriðuföllum

Búast má við miklum vatnavöxtum í ám á höfuðborgarsvæðinu um …
Búast má við miklum vatnavöxtum í ám á höfuðborgarsvæðinu um helgina. mbl.is/Árni Sæberg

„Við erum heppin núna þar sem síðast þegar það kom svona mikil úrkoma var svo mikill klaki alls staðar að það urðu flóð hér og þar í borginni,“ segir Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is. Gert er ráð fyrir óvenjumikilli úrkomu á Suður- og Suðvesturlandi í nótt og alla helgina. Búast má við að uppsöfnuð úrkoma og afrennsli fari víða yfir 150 millimetra á sólarhring á Suðurlandi.

Elín Björk segir að höfuðborgarbúar þurfi ekki að óttast flóð svo lengi sem vel sé hreinsað frá niðurföllum og gætt að því að þau séu ekki full af sandi og laufblöðum.

Í til­kynn­ingu frá Veður­stof­unni kemur fram að einkum megi bú­ast við mikl­um staðbundn­um vatna­vöxt­um und­ir Eyja­fjöll­um og í Þórs­mörk. Þá verður mesta úrkoman á vatnasviði Hvítár í Borgarfirði og Hvítár í Árnessýslu.

Elín Björk segir að stór hluti úrkomunnar muni skila sér í ám á höfuðborgarsvæðinu og því sé varað við vatnavöxtum í ám í borginni. „Það er mikið í Elliðaánum núna og það bætir í þar og svo eru flóðatopparnir alltaf aðeins á eftir úrkomunni sem slíkri. Þó svo að úrkomutoppurinn sé búinn annað kvöld þá heldur áfram að rigna á sunnudaginn þannig að það getur örugglega verið að vaxa í ánum líka á sunnudag.“

Gul viðvörun er í gildi vegna veðurs á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Faxaflóa, Breiðafirði og Suðausturlandi. Viðvörunin er þó ekki vegna vinds að þessu sinni heldur vegna úrkomu og vatnavaxta. Þá er varað við auknum líkum á skriðuföllum á Breiðafirði, Faxaflóa og Suðausturlandi.

Hlýnar mikið í næstu viku

Aðspurð hvort þessi mikla úrkoma sé fyrirboði um vætusamt sumar, að minnsta kosti á Suður- og Suðvesturlandi, segir Elín Björk að svo þurfi alls ekki að vera.

„Það hlýnar mikið í næstu viku og það má alveg gera ráð fyrir því að fólk finni fyrir því þó að það verði ekki endilega glampandi sól á Suður- og Vesturlandi. En það hlýnar og það verða nokkrir þokkalegir dagar í næstu viku.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert