Eva: „Þurfum að bretta upp ermar“

Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps.
Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps. mbl.is/Golli

„Ég er náttúrlega mjög ánægð. Við höfum fengið áfram brautargengi og fengið fleiri góða til starfa,“ sagði Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps, í samtali við blaðamann mbl.is í félagsheimilinu í Trékyllisvík í kvöld. Eva hlaut 23 atkvæði til aðalmanns í sveitarstjórn og Bjarnheiður Fossdal og Guðlaugur Ágústsson, sem einnig hafa setið í hreppsnefnd á síðasta kjörtímabili, voru einnig kosin aðalmenn. Tveir til viðbótar, þeir Arinbjörn Bernharðsson og Björn Torfason koma nýir inn í hreppsnefndina. Eva segir að öll þau fimm sem nú munu skipa nýja hreppsnefnd séu stuðningsmenn fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar sem mikið hefur verið deilt um í hreppsnefndinni á því kjörtímabili sem lýkur senn. Tveir hreppsnefndarmenn sem voru andstæðingar virkjunarinnar gáfu ekki kost á sér í kosningunum nú.

„Við þurfum að bretta upp ermar og vera dugleg að gera eitthvað gott fyrir sveitina okkar,“ sagði Eva spurð um fyrstu viðbrögð sín við hinum afgerandi úrslitum. „Ég er mjög ánægð með að heyra að kjörsóknin hafi verið svona góð. Það er mikill plús og styrkir niðurstöðuna.“

46 voru á kjörskrá og kusu 43 eða rúmlega 93%.

Eva segist hlakka til að takast á við verkefnin fram undan með nýju fólki. Þó að Hvalárvirkjun sé vissulega fyrirferðarmikil í umræðunni þá séu fleiri brýn verkefni sem þurfi að sinna. „Við bíðum þess að geta farið á fullt í verkefni tengt Brothættum byggðum undir kjörorðinu Áfram Árneshreppur. Á næstu vikum verður farið að úthluta styrkjum í því sambandi. Við erum mjög bjartsýn á að það geti gert eitthvað fyrir sveitina og mannlífið.“

Fráfarandi hreppsnefnd mun hittast á einum fundi í byrjun júní. Um miðjan júní verður svo fyrsti fundur nýrrar hreppsnefndar og verður fyrsta verkefni hennar að kjósa sér oddvita.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert