Skortur á starfsheiti leiddi til frávísunar

mbl.is/Hjörtur

Landsréttur felldi úr gildi úrskurð héraðsdóms í gær sem vísaði máli frá dómi vegna þess að staðgengill lögreglustjóra tilgreindi ekki starfsheiti sitt í ákærunni. 

Ákæran sem um ræðir hefst á orðunum „Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gjörir kunnugt:“. Undir ákæruna er ritað nafnið Hulda Elsa Björgvinsdóttir.

Í úrskurði héraðsdóms segir að af upphafsorðum ákæru í máli þessu megi ætla að hún sé gefin út af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Undirritun ákærunnar bendi þó ekki til þess þar sé hvorki getið um starfsheiti þess er gefur ákæruna út, né að hún sé gefin út í umboði lögreglustjóra.

Ekki breytir neinu í þessu efni þótt dómstólnum eigi að vera kunnugt um starfsheiti þess er gefur út ákæruna, enda á ákærður maður ekki að þurfa að velkjast í vafa um að sá er gefur út ákæru hafi til þess ótvíræða heimild að lögum,“ segir í úrskurði héraðsdóms sem vísaði málinu frá á þessum grundvelli. 

Sóknaraðili skaut málinu til Landsréttar sem úrskurðaði að ekki væru næg efni til að vísa málinu frá héraðsdómi. Í upphafsorðum ákærunnar komi fram að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu sé útgefandi hennar og hún sé undirrituð af Huldu Elsu Björgvinsdóttur sem samkvæmt gögnum, sem lögð voru fram í héraðsdómi, er sviðsstjóri ákærusviðs og aðstoðarsaksóknari við embættið og staðgengill lögreglustjóra. 

Samkvæmt lögum höfðar ákærandi sakamál með útgáfu ákæru. Ákærendur eru ríkissaksóknari, héraðssaksóknari og lögreglustjórar og að auki, í umboði þeirra, vararíkissaksóknari, varahéraðssaksóknari, saksóknarar, aðstoðarsaksóknarar og saksóknarfulltrúar, svo og löglærðir aðstoðarlögreglustjórar.

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar,“ segir í úrskurði Landsréttar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert