Sýndi af sér ógnandi hegðun

mbl.is/Eggert

Óskað var eftir aðstoð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu að skemmtistað í miðbænum um fjögurleytið í nótt. Þar höfðu dyraverðir gripið mann sem sýndi af sér ógnandi hegðun inni á staðnum.

Neitaði hann að yfirgefa staðinn með lögreglu og streittist á móti. Hann var því fluttur á lögreglustöðina við Hverfisgötu þar sem hann hélt uppteknum hætti og neitaði með ógnandi tilburðum að fara að fyrirmælum lögreglu. Hann var því vistaður í fangageymslu vegna ástands hans. 

Lögregla hafði einnig verið kölluð að skemmtistað í miðbænum um hálfeittleytið um nóttina. Þar hafði dyravörður óskað aðstoðar lögreglu eftir að gestur þar inni veittist að honum með hnefahöggi. Var maðurinn handtekinn og fluttur í fangamóttökuna á Hverfisgötu. Þar var hann síðar látinn laus að loknum viðræðum við lögreglu.

Þá var einnig töluvert um að ökumenn væru stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna í nótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert