„Eruð þið í stuði?“

Eyþór Arnalds var að vonum hress þegar hann ávarpaði stuðningsmenn …
Eyþór Arnalds var að vonum hress þegar hann ávarpaði stuðningsmenn sína í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Eruð þið í stuði?“ var það fyrsta sem Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, sagði þegar hann ávarpaði stuðningsmenn sína á kosningavöku flokksins á Grand hótel í Reykjavík. Viðbrögðin létu ekki á sér standa og var oddvitanum vel fagnað með lófaklappi og fagnaðarópum, en samkvæmt fyrstu tölum er flokkurinn sá stærsti í Reykjavík með 27,9 prósent atkvæða og fengi átta borgarfulltrúa.

Eyþór sagði þetta frábærar fyrstu tölur og þær bestu sem flokkurinn hefði séð í Reykjavík í 12 ár. Hann væri nú aftur orðinn það sem hann ætti að vera, stærstur.

„Það sem er enn þá mikilvægara er að þessi meirihluti sem er búinn að vera hér allt of lengi, hann er fallinn. En við sjáum líka að við erum að sækja á og auka fylgi þrátt fyrir að það séu ný framboð sem saxa á okkar fylgi.“

Eyþór sagði borgarbúa vera að senda skilaboð um að þeir vilji breytingar og að þeir treysti Sjálfstæðisflokknum til þess að leiða þessar breytingar og byggja upp borgina.

Sagðist hann jafnframt tilbúinn að vinna með öllum þeim flokkum sem eru tilbúnir að gera breytingar og vinna fyrir borgarbúa.

Dagur B. Eggertsson bindur vonir við að Samfylkingin nái inn …
Dagur B. Eggertsson bindur vonir við að Samfylkingin nái inn áttunda manninum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík, var þokkalega brattur þegar hann mætti á kosningavöku Samfylkingarinnar í Austurbæ fyrir skömmu og ávarpaði stuðningsmenn sína. „Ég ætlaði að koma með áttunda manninn með mér, en nóttin er ung,“ sagði Dagur, en Samfylkingin er með 25,9 prósent atkvæða samkvæmt fyrstu tölum og fengi sjö borgarfulltrúa. „Þetta verður spennandi kosninganótt og spennandi kosningabarátta vegna ykkar,“ bætti hann við og hneigði sig fyrir öllum þeim jafnaðarmönnum og sjálfboðaliðum sem komið hafa að baráttunni.

Dagur sagði Samfylkinguna hafa mjög skýra sýn á það hvert flokkurinn vilji stefna og hvernig borg hann vilji þróa. Nóttin muni skera úr um það hve margir vilji gera það með Samfylkingunni.

Hann sagðist bera þá von í brjósti að allir sem vilji horfa til framtíðar geti sameinast og sagt saman í einum kór: „Áfram Reykjavík.“

Þá sagði hann það einu skyldu kvöldsins að fólk skemmti sér. „Þetta er kosningapartý og við ætlum að skemmta okkur.“

Samfylkingin. Kosningavaka.
Samfylkingin. Kosningavaka. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert