Líf bjó sig undir það versta

Líf Magneudóttir segist hafa undirbúið sig fyrir það versta eftir …
Líf Magneudóttir segist hafa undirbúið sig fyrir það versta eftir að fyrstu tölur birtust frá Hafnarfirði og Kópavogi. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég þori aldrei að hrósa happi of snemma en við stefndum að því að ná henni Elínu Oddnýju inn og ég ber vonir til þess að við gerum það og jafnvel að Þorsteinn, þriðji maður á lista, detti inn þegar líður á nóttina,“ segir Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna í Reykjavík, um fyrstu tölur. VG er með tvo fulltrúa í borgarstjórn samkvæmt þeim.

Í samtali við mbl.is játar hún því að hafa verið uggandi yfir fyrstu tölum úr Hafnarfirði og Kópavogi, þar sem uppskera Vinstri grænna virðist ætla að verða afar rýr og flokkurinn missir sína bæjarfulltrúa, m.v. fyrstu tölur.

Líf bjó sig undir að það sama yrði uppi á teningnum í borginni.

„Ég fylgdist með þeim tölum og satt að segja undirbjó ég mig fyrir það versta núna, við fyrstu tölur. En ef þetta er þannig á landsvísu þá verðum við bara einhvern veginn að rýna það og útskýra, ef þetta er eitthvað trend.“

Hún segist ekki geta sagt til um það hvort ríkisstjórnarsamstarfið við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk sé að hafa áhrif á fylgi við flokkinn nú í kosningum til sveitarstjórna, en vonast eftir því að staðan vænkist í borginni er líður á nóttina.

„Við eigum talsvert mikið af framfaramálum í borginni, við settum margt á dagskrá sem er gott fyrir borgarbúa og ég vona að við uppskerum eins og við sáðum,“ segir Líf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert