Sólarhringstöf á flugi Icelandair frá Helsinki

Bilun kom upp í vél Icelandair sem átti að fara …
Bilun kom upp í vél Icelandair sem átti að fara frá Helsinki til Keflavíkur í gær. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Vél Icelandair frá Helsinki sem átti að lenda í Keflavík í gærkvöldi stendur enn sem fastast á flugvellinum í Helsinki. Samkvæmt upplýsingum frá Guðjóni Arngrímssyni, upplýsingafulltrúa Icelandair, kom upp bilun þegar vélin átti að fara í gærkvöldi.

„Viðgerð dróst á langinn og áhöfn þurfti sína hvíld samkvæmt reglum og því fóru allir á hótel í gær. Þegar til stóð að fara núna í morgunsárið kom í ljós að það vantaði varahlut og það varð frekari töf,“ segir Guðjón.  

Um leið og þessi staða kom var farið í að leysa úr málum sem flestra farþega og það gekk ágætlega að sögn Guðjóns. Flestir farþeganna fóru með öðrum flugum og öðrum flugfélögum.

Áætluð koma vélarinnar er klukkan 20:34 í kvöld og með henni koma um 30 farþegar sem áttu bókað flug með vélinni í gærkvöldi. Guðjón segir að séð verði til þess að þeir sem urðu fyrir mestu töfum fái þær bætur sem þeir eiga rétt á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert