Dúxaði með 9,94

Daníel Einar Hauksson er dúxinn í Flensborg.
Daníel Einar Hauksson er dúxinn í Flensborg. Ljósmyndari Hildigunnur Guðlaugsdóttir

Nýtt einkunnamet var slegið í Flensborg þetta vorið en Daníel Einar Hauksson lauk stúdentsprófi af fjögurra ára braut með 9,94 í meðaleinkunn. Þetta er hæsta stúdentseinkunn sem gefin hefur verið við skólann. Í þriggja ára kerfinu var Ólafur Andri Davíðsson dúx með 9,89 í meðaleinkunn. Alls voru níu nemendur með 9 eða hærra í meðaleinkunn á stúdentsprófi frá skólanum í vor. 

Óvanalega stór hópur brautskráðist frá Flensborgarskólanum á laugardaginn. Í hópnum var 121 nemandi en ástæðan var sú að verið var að útskrifa síðasta stóra hópinn sem var í fjögurra ára kerfi og þann fyrsta sem er útskrifaður í þriggja ára kerfi. Það luku 52 nemendur námi á þremur árum.

Útskriftarnemendur fengu fjölda verðlauna frá skólanum en að auki veittu  ýmis fyrirtæki, stofnanir og samtök verðlaun fyrir afbragðs námsárangur í ýmsum greinum. Útskriftarnemendur gáfu veglega upphæð til Píeta – forvarnarsamtaka gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða -  í nafni skólans. Kynjahlutfall er þannig að karlar eru 53% en konur 47%

27 nemendur brautskráðust af félagsfræðibrautum, málabraut luku níu nemendur, 32 luku raunvísindabrautum og 13 nemendur viðskipta- og hagfræðibraut. 36 nemendur luku stúdentsprófi af nýrri braut, opinni námsbraut, þar sem nemendur raða saman blandaðri sérhæfingu af eigin vali. Alls luku 33 stúdentar íþróttaafrekssviði sem hluta af stúdentsprófinu. Sex nemendur luku námi af starfsbraut.

Að auki voru tveir nýnemar heiðraðir fyrir námsárangur á fyrsta ári og skiptinemar sem voru við skólann í vetur kvaddir, en þeir voru sex alls.

Skólastarfið í Flensborg gekk vel í vetur og minntust skólameistari og aðstoðarskólameistari á fjölda viðburða og uppákoma í ræðum sínum.

Skólastarfið í Flensborg gekk vel í vetur og minntust skólameistari og aðstoðarskólameistari á fjölda viðburða og uppákoma í ræðum sínum.

„Í ræðu sinni sagði skólameistari m.a.:

  • Uppbygging skóla snýst um samfélagslega sátt, þolinmóða fjárfestingu og framtíðarsýn.
  • Við erum að undirbúa þau sem eiga að taka við af okkur. Við þurfum að búa okkur skjól í núinu og temja okkur lífsgæði sem byggja á því að bæta umhverfi okkar og styrkja samfélagið
  • Skólinn er samfélag og endurspeglar íslenskt samfélag með öllum þess kostum og göllum. Við eigum að kenna, að mennta unga fólkið. Til þess að menntast þarf nám að eiga sér stað og það byggir á einbeitingu, nærveru, æfingu og samskiptum einstakra nemenda.
  • Það þarf að tryggja jákvæð og heilbrigð samskipti, kurteisa notkun þessa undratækis sem snjallsímar og aðrar tölvur eru. Skólakerfið þarf t.d. að geta unnið með þá tækni svo ungmenni – og fullorðnir – viti hvernig samskipti þurfa að vera á hraðbrautum tölvunetsins og gera okkur grein fyrir því að allt sem fer á netið geymist lengi í risageymslum tölvuheimsins og oft í mörgum eintökum.“

Við athöfnina sungu Kór Flensborgarskólans og Flensborgarkórinn undir stjórn Hrafnhildar Blomsterberg,“ samkvæmt fréttatilkynningu frá Flensborg.

Stúdentar frá Flensborg vorið 2018.
Stúdentar frá Flensborg vorið 2018. Ljósmynd Heiða Ósk Bjarnadóttir
mbl.is