Fellur úrkomumet maímánaðar í Reykjavík?

Regnfatnaður og regnhlífar ættu að geta fengið hvíld í dag.
Regnfatnaður og regnhlífar ættu að geta fengið hvíld í dag. mbl.is/Eggert

Það verður mjótt á munum hvort úrkomumet maímánaðar í Reykjavík verði slegið þetta árið.  Núverandi met er frá 1989 og er 126,0 mm, en það sem af er þessum mánuði er búið að rigna sem nemur 125,3 mm.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur  gerir úrkomunni skil á Facebook síðu sinni í dag. „Fyrir helgi stefndi mögulega í úrkomumet maímánaðar í Reykjavík. Á laugardag rigndi að vísu talsvert minna í magni talið en hafði verið spáð. Hins vegar var úrkoma í gær og í nótt heldur meiri,“ segir í færslu Einars.

„Kl. 18 í gær voru skráðir 116,2 mm. 8,3 mm bættust í nótt og þá á eftir að taka tillit til úrkomu að kvöldi 30. apríl sem telst til maí (sennilega 0,8 mm). Niðurstaðan úr þessum reiknikúnstum gefur 125,3 mm.“

Munurinn er því lítill.

„Metið er nánast jafnað, það vantar aðeins upp á,“ segir Einar í samtali við mbl.is. Ekki er spáð neinni úrkomu á höfuðborgarsvæðinu í dag, en mánaðarmót eru enn ekki komin. 

„Það er síðan úrkomubakki sem verður hér yfir landinu á hádegi á morgun og við verðum í jaðrinum á honum, þó það verði meiri úrkoma á Suðurnesjunum. Án þess að maður sé að biðja um meiri úrkomu, þá er það helst í fyrramálið að það gæti bæst við það sem upp á vantar,“ bætir hann við.

Síðan kann að gera einhverja skúr á miðvikudaginn, þó að þá verði þurrt að kalla en á fimmtudag á að vera úrskomulaust.

Bergmál frá hitametunum í Skandinavíu

Sé hins vegar útlit fyrir að metið falli verður að staðfesta það með nákvæmri tölfræði Veðurstofunnar.

Úrkomuna í maí segir Einar vera bergmál frá hitametunum sem eru núna eru að falla um alla Skandinavíu. „Þar er meðalhitinn í maímánuði jafnvel einni gráðu heitari en síðasta met. Þetta eru öfgarnar og það er lofthringrásin hér á Atlantshafinu sem ræður þessu.“

Frá og með fimmtudeginum verði hins vegar skrúfað fyrir regnið, að minnsta kosti fram yfir helgi. „Þá verður tiltölulega hlýr kafli og háþrýstingur,“ segir hann. Meiri óvissa sé síðan um hvað fylgi í kjölfarið. „Þá gæti alveg mögulega lagst aftur í einhverjar rigningar,“ segir Einar og ítrekar að nokkrir hlýir regnlausir dagar ættu þó að gleðja höfuðborgarbúa dagana á undan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert