Fjórðungur barna í vinnu

Starfandi börnum hefur fjölgað um 3,2% frá árinu 2015 en …
Starfandi börnum hefur fjölgað um 3,2% frá árinu 2015 en Hagstofa Íslands hefur tekið saman fróðleik varðandi börn á Íslandi. mbl.is/Hari

Alls voru 19.804 (24,8%) börn á íslenskum vinnumarkaði (þ.e. höfðu staðgreiðsluskyldar tekjur af atvinnu á síðasta ári, 24,6% allra drengja og 25,0% allra stúlkna á Íslandi. Starfandi börnum hefur fjölgað um 3,2% frá árinu 2015. Hins vegar hefur heildarfjöldi starfandi barna á vinnumarkaði dregist nokkuð saman frá árinu 2007 þegar hann var 23.808 (30,0%). Þetta kemur fram í tölum Hagstofu Íslands en hún birti í dag hagtölur sem snerta sérstaklega stöðu barna.

Í fyrsta sinn er um að ræða samantekt upplýsinga sem sumar hverjar hafa áður birst en einnig nýjar upplýsingar svo sem um börn á vinnumarkaði.  Verkefnið er unnið í samstarfi við umboðsmann barna.

Frá árinu 2000 til ársins 2017 hefur börnum sem slasast í umferðarslysum fækkað um 35% eða úr 357 árið 2000 í 232 árið 2017. Á þessu tímabili urðu fæst umferðarslys á börnum árið 2014 þegar 198 börn slösuðust í umferðarslysi en flest árið 2002 þegar 381 barn slasaðist í umferðarslysum.

Síðustu tvo áratugi hefur fjöldi fæddra barna verið á bilinu 4.034 til 5.026 á ári. Árleg fæðingarþyngd barna á árunum 1998 til 2017 var að meðaltali 3.631,4 grömm. Fæðingaþyngd hefur frekar lækkað á tímabilinu ef litið er til leitni árlegs meðaltals fæðingarþyngdar.

401 barn vistað utan heimilis 2016

Árið 2007 höfðu barnaverndarnefndir afskipti af 3.852 börnum sem nemur 4,2% af heildarfjölda barna 18 ára og yngri. Árið 2016 hafði hlutfallið hækkað í 6,2% barna á sama aldursbili, eða sem nam 5.260 börnum.

Yfir sama tímabil jókst einnig fjöldi barna sem voru vistuð utan heimilis. Árið 2005 voru alls 349 börn (0,4%) vistuð utan heimilis. Þar af voru 179 drengir og 170 stúlkur. Árið 2016 voru í heildina 401 barn vistað utan heimilis (0,5%). Af þeim voru 211 drengir og 191 stúlka.

Árið 2018 bjuggu 80.383 börn á Íslandi, 41.060 drengir og 39.323 stúlkur. Árið 2017 voru 2.453 börn á Íslandi innflytjendur, 1.267 drengir og 1.186 stúlkur. Á árunum 1998 til 2009 fjölgaði þeim að meðaltali um 18%, mest um 31% milli áranna 2007 og 2008. Frá 2010 til 2013 fækkaði innflytjendum á barnsaldri en fjölgaði svo um 10% frá 2016 til 2017

Árið 2017 fluttu 797 stúlkur til landsins en 434 fluttust frá því en sama ár fluttust 850 drengir til landsins en 497 fluttu frá landinu.

Pólska er móðurmál 12,6% leikskólabarna

Alls voru 19.090 börn í leikskólum á Íslandi árið 2016, 9.739 drengir og 9.351 stúlka. Sama ár voru 44.527 nemendur í grunnskólum, 22.789 drengir og 21.738 stúlkur. Meðal leikskólabarna árið 2016 voru 12,6% með erlent móðurmál og 9,3% barna í grunnskólum. Til samanburðar má geta þess að árið 1998 voru 3,8 % leikskólabarna með erlent móðurmál og 1,8% grunnskólabarna. Stærstu hópar barna með erlent tungumál í leik- og grunnskólum árið 2016 voru með pólsku sem móðurmál. Af 2.410 leikskólabörnum með erlent móðurmál voru 38,7% með pólsku og af 4.148 grunnskólabörnum með erlent móðurmál voru 35,4% með pólsku.

Alls sóttu 176 börn um alþjóðlega vernd á Íslandi árið 2017

Alls sóttu 176 börn um alþjóðlega vernd á Íslandi árið 2017. Á tímabilinu 1998-2017 sóttu flest börn um alþjóðlega vernd árið 2016, alls 271 barn. Af þeim 176 börnum sem sóttu um alþjóðlega vernd á Íslandi árið 2017 höfðu 122 ríkisfang frá fjórum löndum, eða 38 frá Georgíu, 36 frá Albaníu, 27 frá Írak og 21 frá Makedóníu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert