Íris Brynja dúx í Verzló með 9,7

Íris Brynja Helgadóttir
Íris Brynja Helgadóttir Ljósmynd/Aðsend

„Ég er ekkert smá ánægð,“ segir Íris Brynja Helgadóttir, sem var dúx Verzlunarskóla Íslands laugardag síðastliðinn, við mbl.is. Hún útskrifast með meðaleinkunnina 9,7 eftir að hafa tekið stúdentspróf á þremur árum. Íris Brynja hlaut einnig verðlaun fyrir besta námsárangur í 2. Bekk í fyrra, með meðaleinkunnina 9,7.

Eins og fyrr segir var Íris Brynja dúx meðal þeirra sem útskrifuðust með stúdentspróf eftir þriggja ára nám, en eins og kom fram í Morgunblaðinu var Bjarni Ármann Atla­son dúx skólans meðal þeirra sem kláruðu stúdentspróf á fjórum árum með meðaleinkunn 9,9. Bjarni Ármann var í síðasta árgangi skólans sem tekur stúdentspróf á fjórum árum.

Íris Brynja segist alltaf hafa gaman af því að læra og að hún hafi mikin metnað þegar kemur að því sem hún tekur að sér. Spurð um framhaldið segir hún „akkúrat núna er ég bara á leið til Mexíkó í útskriftaferð.“ Til lengri tíma nefnir Íris Brynja að hún hafi hug á að komast inn í læknanám, enda þykir henni allt tengt því mjög spennandi.

Læknanámið verður hinsvegar ekki alveg strax á dagskrá þar sem dúxinn hyggst fara fyrst til Spánar að læra spænsku og taka tíma til þess að undirbúa sig fyrir háskólagönguna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert