Konur nær helmingur útskrifaðra húsasmiða

Útskriftarárgangur Verkmenntaskóla Austurlands ásamt skólameistara.
Útskriftarárgangur Verkmenntaskóla Austurlands ásamt skólameistara. Ljósmynd/Jóhanna Kristín Hauksdóttir

Verkmenntaskóli Austurlands útskrifaði 33 nemendur af 11 námsbrautum um helgina. Af húsasmíðabraut brautskráðust 11 nemendur en athygli vekur að þar af voru fimm stúlkur. „Þetta hafa hingað til nánast bara verið strákar,“ segir Elvar Jónsson, skólameistari Verkmenntaskólans.

Aðspurður hvað hann telji valda þessari jákvæðu þróun segir Elvar að kynning námsbrautanna skipti máli. „Við höfum lagt mikla áherslu á að koma því á framfæri að allar námsbrautirnar séu fyrir bæði kyn, einnig húsasmíði, vélstjórn, rafvirkjun og svo framvegis.“

Tveir nemendur hlutu viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur. Það voru þær Marta Guðlaug Svavarsdóttir, með meðaleinkunnina 9,41, og Kristín Jóna Skúladóttir með meðaleinkunnina 9,22, en þær útskrifuðust báðar af húsasmíðabraut. Það eru því ekki aðeins kynjahlutföllin sem eru gleðiefni. „Við finnum það að við erum að fá inn sterkari nemendur úr grunnskólunum inn á þessar brautir.“ segir Elvar.

Enn mikil vöntun á verknámsmenntuðu fólki

Elvar telur þó að enn sé ekki nógu gott samræmi á milli vöntunar á verknámsmenntuðu fólki og þess fjölda sem sækir námið. „Enn þá er það þannig að það er allt of lágt hlutfall nemenda að fara í verknám, hér fyrir austan og á landsvísu. Það er mikill skortur á fólki í þessi iðnaðarmannastörf og ef það ætti að vera gott samræmi á milli þess sem er þörf á í atvinnulífinu og þess fjölda sem fer í námið þá þyrftu mikið fleiri að fara í verknám.”

Aðspurður hvort átak þurfi í þessum efnum telur Elvar svo vera. „Já ég held að það þurfi verulegt átak. Það er auðvitað ýmislegt sem hefur verið gert, bæði hjá skólunum og Samtökum atvinnulífsins, en það er enn þá langt í land með að ná í þau hlutföll sem þarf til að endurspegla þörfina í atvinnulífinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert