„Lokahnykkurinn“ við gerð heilsárshringvegar

Kröpp beygja á Vestfjarðavegi skammt frá fossinum Dynjanda.
Kröpp beygja á Vestfjarðavegi skammt frá fossinum Dynjanda. Skjaskot/Vegagerðin

Vegagerðin hefur sent Skipulagsstofnun til ákvörðunar tillögu að matsáætlun varðandi endurbyggingu Vestfjarðarvegar um Dynjandisheiði og Bíldudalsveg. Í henni kemur fram að kostnaður við hina fyrirhuguðu framkvæmd er talinn vera í kringum 5,6 milljarðar króna. 

Tilgangurinn er að bæta samgöngur um Vestfirði og hafa þar með jákvæð áhrif á samfélagið. Með nýjum vegum verða samgöngur á svæðinu áreiðanlegri og öruggari. Að loknum framkvæmdum verða Vestfjarðarvegur milli norðan- og sunnanverðra Vestfjarða og Bíldudalsvegur milli Bíldudals og Vestfjarðavegar heilsársvegir og hringleiðin um Vestfirði opin allan ársins hring sé á annað borð ferðaveður, segir í tillögu Vegagerðarinnar að matsáætlun. 

Skjáskot/Vegagerðin

Samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum er framkvæmdin matsskyld. Tillagan sem nú hefur verið lögð fram er gróf verklýsing, þar er gerð grein fyrir fyrir framkvæmdinni, framkvæmda- og áhrifasvæði hennar, ásamt þeim þáttum umhverfisins sem taldir eru geta orðið fyrir áhrifum. Í tillögu að matsáætlun er því jafnframt lýst hvernig staðið er að rannsóknum og mati á áhrifum. 

Ekki haldið opnu yfir háveturinn

Fyrirhugað er að endurbyggja Vestfjarðaveg um Dynjandisheiði á kafla sem nær frá Hörgsnesi í Vatnsfirði, langleiðina að Mjólkárvirkjun í Borgarfirði. Einnig er fyrirhugað að endurbyggja Bíldudalsveg á kafla sem nær frá Bíldudalsflugvelli á Hvassnesi að Vestfjarðavegi í Helluskarði á Dynjandisheiði. Framkvæmdin er í tveimur sveitarfélögum; Vesturbyggð og Ísafjarðarbæ.

Markmið framkvæmdarinnar er að bæta samgöngur milli sunnan- og norðanverðra Vestfjarða. „Hún ásamt Dýrafjarðargöngum er lokahnykkurinn við gerð heilsárshringvegar um Vestfirði,“ segir í tillögu Vegagerðarinnar. Vestfjarðavegi um Dynjandisheiði er ekki haldið opnum yfir háveturinn á kaflanum frá Hótel Flókalundi í Vatnsfirði að Þingeyri í Dýrafirði. Sama gildir um Bíldudalsveg á kaflanum frá Fossi að Vestfjarðavegi í Helluskarði á Dynjandisheiði. Í undirbúningi og í framkvæmd eru miklar vegabætur á Vestfjarðavegi með lagningu Dýrafjarðarganga. „Jarðgöngin munu ekki nýtast að fullu fyrr en lagður hefur verið heilsársvegur um Dynjandisheiði með tengingu til Bíldudals,“ segir ennfremur í tillögunni.

Nýr kafli Vestfjarðavegar verður 35-40 kílómetra langur, háð leiðarvali. Hann verður lagður í staðinn fyrir tæplega 41 kílómetra langan veg. Nýr kafli Bíldudalsvegar verður liðlega 28 kílómetra langur. Hann verður lagður í staðinn fyrir rúmlega 29 kílómetra langan veg.

Kröpp beygja á Vestfjarðavegi undir Botnshesti.
Kröpp beygja á Vestfjarðavegi undir Botnshesti. Skjáskot/Vegagerðin

Í tillögu Vegagerðarinnar er tekið fram að á Bíldudal séu aukin umsvif vegna fiskeldis í Arnarfirði sem hafa í för með sér aukna þungaflutninga um Bíldudalsveg og Vestfjarðaveg. Því hefur verið ákveðið að í tengslum við nýjan Vestfjarðaveg um Dynjandisheiði sé nauðsynlegt að endurbyggja Bíldudalsveg. Fyrirhugað er að skipta framkvæmdinni í þrjá áfanga. 

Drög að tillögu að matsáætlun voru kynnt í fyrra. Athugasemdir bárust frá 20 aðilum og snúa þær flestar að þeim veglínum sem kynntar voru, en einnig um áfangaskiptingu framkvæmdarinnar. 

Liggur um friðlýst svæði

Núverandi Vestfjarðavegur um Dynjandisheiði og þar með fyrirhugað framkvæmdasvæði liggur um friðlýst svæði, hverfisverndað svæði og svæði á náttúruminjaskrá. Samtals ná vegirnir yfir 70 kílómetra leið. Nýr vegur mun fylgja núverandi vegi á köflum en fara á öðrum stöðum yfir lítt raskað land. 

Veglínur og fyrirhuguð áfangaskipting framkvæmdarinnar
Veglínur og fyrirhuguð áfangaskipting framkvæmdarinnar Skjáskot/Vegagerðin

Sá hluti Bíldudalsvegar sem fyrirhugað er að endurnýja hefst við Bíldudalsflugvöll á Hvassnesi, við vegamót Flugvallarvegar og Bíldudalsvegar og endar við Vestfjarðaveg í Helluskarði. Ákveðið var að vegurinn myndi liggja í grennd við núverandi veg, þar sem það væri hægt. Mesta breytingin á legu vegarins er í botni Trostansfjarðar en einnig eru breytingar í botni Fossfjarðar og Reykjarfjarðar. „Endanleg ákvörðun um legu vegarins verður tekin í samráði við landeigendur, t.d. þannig að hún hafi sem minnst áhrif á fyrirhugaða landnýtingu í Dufansdal, búskap og æðarvarp í landi Foss og upplifun gesta í Reykjarfjarðarlaug í Reykjarfirði. Einnig munu niðurstöður fornleifarannsókna hafa áhrif á legu vegarins,“ segir í tillögu Vegagerðarinnar.

Undanfari frummatsskýrslu

Í frummatsskýrslu verður fjallað um þá þætti umhverfisins sem hugsanlega geta orðið fyrir umtalsverðum umhverfisáhrifum vegna framkvæmdarinnar. Þar verður m.a. lögð áhersla á gróðurfar, fuglalíf, lífríki, vatnsgæði, jarðmyndanir, útivist, ferðamennsku og ásýnd lands. 

Þá verður í frummatsskýrslu umfjöllun um kolefnisspor mismunandi leiða og lausna. Skoðað verður hvaða áhrif stytting leiðar, lagning jarðganga í stað vegar og ræsi í stað brúar hafa á kolefnisspor framkvæmda.

Núverandi vegur um norðanverða Dynjandisheiði í maí 2015.
Núverandi vegur um norðanverða Dynjandisheiði í maí 2015. Skjáskot/Vegagerðin

Skipulagsstofnun hefur nú fjórar vikur til að taka ákvörðun um tillögu Vegagerðarinnar. Á þeim tíma þarf hún að leita eftir umsögn leyfisveitenda og eftir atvikum annarra. Umsagnaraðilar fá að minnsta kosti 10 virka daga til að gefa umsögn sína en allir geta sent Skipulagsstofnun athugasemdir innan þess tíma.

Að loknum kynningartíma tekur Skipulagsstofnun ákvörðun um áætlunina. Niðurstaða Skipulagsstofnunar getur verið á þrjá vegu: Fallist á tillögu framkvæmdaraðila, fallist á tillögu framkvæmdaaðila með athugasemdum, eða tillögunni er synjað.

Brú yfir Austurá.
Brú yfir Austurá. Skjáskot/Vegagerðin
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert