Útgjöld vegna hælisleitenda 3,4 milljarðar

Heildarútgjöld ríkissjóðs vegna hælisleitenda voru tæpar 240 milljón króna árið …
Heildarútgjöld ríkissjóðs vegna hælisleitenda voru tæpar 240 milljón króna árið 2012, í fyrra námu útgjöld vegna málaliðsins 3,437 milljörðum króna. mbl.is/Eggert

Heildarútgjöld ríkissjóðs vegna hælisleitenda voru tæpar 240 milljón króna árið 2012, í fyrra námu útgjöld vegna málaliðsins 3,437 milljörðum króna. Þetta kemur fram í svörum dómsmálaráðherra við fyrirspurn Ólafs Ísleifssonar, þingflokksformanns Flokks fólksins.

Óskaði Ólafur upplýsinga um árleg heildarútgjöld ríkissjóðs og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu vegna málefna hælisleitenda fyrir árin 2012–2017. Segir í svörum ráðuneytisins að þau eigi eingöngu við um heildarútgjöld ríkissjóðs, en að í þeim séu meðtaldar greiðslur til sveitarfélaga vegna þeirrar þjónustu sem þau veita umsækjendum um alþjóðlega vernd. 

Árið 2012 námu heildargreiðslur, samkvæmt þeim svörum sem bárust frá Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála tæpum 240 milljón króna. 2013 var upphæðin 468 milljónir, 506 árið 2014, 715 milljónir árið 2015, 1,882 milljarðar 2016 og 3,437 milljarðar í fyrra.

Óskaði Ólafur einnig eftir upplýsingum um einstaka útgjaldaþætti á þessu sviði sem falla undir löggæslumál, landamæravörslu, skólamála, heilbrigðismál og velferðarmál.

Ekki samningar vegna landamæravörslu eða löggæslu

Fram kemur í svörum ráðherra að Útlendingastofnun sé einnig með þjónustusamning við Reykjanesbæ, sem og embætti ríkislögreglustjóra um framkvæmd frávísana og brottvísana og lögregluna á höfuðborgarsvæðinu og lögregluna á Suðurnesjum um móttöku umsækjenda um vernd, skráningu þeirra og um framkvæmd birtinga, frávísana og brottvísana. Ekki sé hins vegar um að ræða samninga eða útgjöld vegna löggæslumála eða landamæravörslu. 

Kostnaður vegna heilbrigðismála hafi hins vegar verið engin 2012, 95.000 kr. árið 2013, tvær milljónir 2014, 15 milljónir árið eftir, 94 milljónir 2016  og 186 milljónir í fyrra. Þá sé kostnaður kærunefndar útlendingamála enginn fyrstu þrjú árin sem um er spurt, en sé tæpar 60 milljónir 2015, 144 milljónir 2016 og 212 milljónir í fyrra. Fram kemur að hjá kærunefnd útlendingamála sé ekki haldið sérstaklega utan um kostnað vegna mála umsækjenda um vernd en það sé þó mat nefndarinnar að um 85% alls kostnaðar tilheyri því verkefni. 

Hjá Útlendingastofnun er hins vegar gerð grein fyrir þeim kostnaði sem sérstaklega fellur til vegna málarekstrar umsækjenda um vernd hjá stofnuninni. Árið 2012 nam sá kostnaður rúmum 19 milljónum króna, 2013 var hann 32 milljónir, 42 milljónir árið eftir, 57 milljónir árið 2015, tæp 91 milljón 2016 og 136 milljónir í fyrra. 

Útgjöld vegna svo nefnds hælisliðar, en undir hann fellur m.a. heilbrigðiskostnaður, skólaganga, húsnæði og uppihald hefur hækkað á tímabilinu úr 221 milljónum árið 2012 í 3,089 milljarða í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert