542 ófrjósemisaðgerðir á körlum

Embætti landlæknis.
Embætti landlæknis. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Alls voru 542 ófrjósemisaðgerðir gerðar á körlum á Íslandi á síðasta ári, sem er meira en nokkru sinni fyrr. Aðgerðirnar voru 517 árið 2016.

Samanlagt voru framkvæmdar 638 ófrjósemisaðgerðir á landinu árið 2017. Tæplega 85% allra aðgerða voru gerðar á körlum, að því er kemur fram í Talnabrunni Embættis landlæknis sem var birtur í dag.

Ófrjósemisaðgerðir á konum voru 96 á síðasta ári og er þetta í fyrsta sinn síðan skráning hófst sem árlegur heildarfjöldi ófrjósemisaðgerða á konum fer undir 100.

„Undanfarna áratugi hefur mikil breyting orðið á hlutfalli karla og kvenna sem undirgangast ófrjósemisaðgerðir hér á landi. Ófrjósemisaðgerðum á körlum fjölgaði jafnt og þétt til ársins 2013 en síðan þá hefur heildarfjöldi aðgerða haldist nokkuð stöðugur. Á sama tíma hefur dregið verulega úr ófrjósemisaðgerðum meðal kvenna,“ segir í Talnabrunninum.

Fram kemur að 15% kvenna hafi farið í slíkar aðgerðir árið 2017 en rúmlega 40% fyrir áratug. Fyrir tuttugu árum voru þær tæplega 83% allra ófrjósemisaðgerða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert