„Ég á auðvelt með nám“

Írena Rut.
Írena Rut. Ljósmynd/Aðsend

„Ég hef alltaf verið mjög metnaðarfull og vil vinna þau verkefni sem ég tek mér fyrir hendur eins vel og ég get,“ segir Írena Rut Stefánsdóttir sem hlaut verðlaun fyrir afburðaárangur á stúdentsprófi þegar hún útskrifaðist frá Menntaskólanum að Laugarvatni á laugardag.

Írena Rut útskrifaðist með heildarmeðaleinkunnina 9,35 og var dúx 3. árs nýstúdenta, en hún var einnig dúx skólans þetta árið með meðaleinkunnina 9,9. Þar að auki hlaut hún viðurkenningar fyrir ágætan árangur í þýsku, íslensku, náttúruvísindum og eðlisfræði. Þá hlaut hún viðurkenningu fyrir félagsstörf.

Eins og sjá má liggja flest fög mjög vel fyrir Írenu Rut. „Ég á mjög auðvelt með nám. Maður uppsker því sem maður sáir og ef metnaðurinn og áhuginn er til staðar þá á þetta ekki að vera neitt mál. Svo er líka mjög mikilvægt að vera vel skipulagður og þá gengur þetta bara vel.“

Tekur líka þátt í félagslífinu

Hún er þó ekki ein af þeim sem sniðgengur félagslífið námsins vegna. Eins og áður segir hlaut hún viðurkenningu fyrir félagsstörf, en hún sat í stjórn nemendafélags skólans, Mímis, sem ritnefndarformaður til eins árs.

„Ég hef samt alltaf sett námið í svolítinn forgang en ég passa mig líka að eyða tíma í félagslífið. Mér finnst mjög mikilvægt að rækta það líka,“ segir Írena Rut.

„Menntaskólinn að Laugarvatni er einstakur skóli og það sem einkennir hann er afar mikil samheldni. Maður eignast vini til lífstíðar og það er ótrúleg lífsreynsla að búa með vinum sínum. Það myndast gott samband á milli nemenda og kennara og það má í rauninni bara kalla þetta eina stóra fjölskyldu. Þessi þrjú ár í skólanum hafa verið ómetanleg og hafa gefið mér svo margt. Þakklæti er mér efst í huga.“

Mexíkó, Kjörís og læknisfræði framundan

Leið Írenu Rutar liggur til Mexíkó á miðvikudaginn þar sem hún ætlar að fagna útskriftinni ásamt bekkjarfélögum sínum. Í sumar mun hún svo starfa hjá Kjörís í Hveragerði þar sem hún býr. „Ég ætla bara að vinna eins mikið og ég get til þess að safna pening fyrir komandi námi.“

Írena Rut stefnir nefnilega á nám í lífeindafræði við Háskóla Íslands í haust. Segist hún líta á það sem undirbúning fyrir inntökupróf í læknisfræði sem hún ætlar að þreyta næsta vor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert