Ljósmæður sömdu við ríkið í dag

Fulltrúar ríkisins og ljósmæðra náðu saman á fundi um nýjan kjarasamning ljósmæðra í dag. Þetta staðfestir Áslaug Valsdóttir, formaður Ljósmæðrafélags Íslands, við mbl.is en fyrst var greint frá málinu á Vísi.

Fundur samninganefndanna var sá fyrsti í þrár vikur, en á tímabilinu hafa þó farið fram nokkrir vinnufundir og segir Áslaug þá hafa verið hjálplega.

Áslaug segir að aðkoma Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra hafi gert gæfumuninn í að höggva á „hnútinn“ sem myndast hafði í viðræðunum.

Hún gat ekki sagt nánar til um innihald samningsins, en hann verður kynntur fyrir félagsmönnum Ljósmæðrafélags Íslands í vikunni. Hún vonar innilega að samningurinn verði samþykktur. „Við töldum að við kæmumst ekki lengra í þessari lotu.“

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert