Mikilvægt fyrir neytendur og bændur

Páll Gunnar Pálsson forstjóri Samkeppniseftirlitsins.
Páll Gunnar Pálsson forstjóri Samkeppniseftirlitsins. mbl.is/Ómar

„Þetta mál varðar samkeppnisaðstæður á mjólkurmarkaði til framtíðar. Málið er í því ljósi mikilvægt bæði fyrir neytendur og bændur.“ Þetta segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, í samtali við mbl.is um úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að Mjólkursamsölunni beri að greiða alls 480 milljónir króna í sekt fyrir brot á samkeppnislögum.

Úrskurður Héraðsdóms er í samræmi við ákvörðun Samkeppniseftirlitsins frá árinu 2016 þar sem eftirlitið gerði MS að greiða 480 milljóna króna stjórnvaldssekt vegna brota á samkeppnislögum.

MS skaut ákvörðuninni til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem féll frá stærstum hluta ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins, en gerði MS þó að greiða 40 milljónir í sekt fyrir brot á upplýsingaskyldu samkeppnislaga. Í kjöfarið ákvað Samkeppniseftirlitið að bera úrskurðinn undir dómstóla og stefndi MS með fyrrgreindri niðurstöðu.

Mjólkursamsalan hefur tilkynnt að hún ætli að áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur.

mbl.is