„Eftir að hafa yfirfarið forsendur dómsins telur MS óhjákvæmilegt að áfrýja niðurstöðunni sem fer þvert gegn úrskurði fjölskipaðs stjórnvalds.“ Þetta er meðal þess sem kemur fram í tilkynningu frá Mjólkursamsölunni.
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi fyrirtækið fyrr í dag til að greiða 440 milljónir króna í sekt vegna misnotkunar á markaðsráðandi stöðu með því að selja keppinautum sínum grundvallarhráefni, hrámjólk, til framleiðslu á mjólkurvörum á mun hærra verði en MS sjálf og tengdir aðilar, Kaupfélag Skagfirðinga og dótturfélög, þurftu að greiða.
Þar að auki var félagið dæmt til að greiða 40 milljónir vegna brota á upplýsingaskyldu samkeppnislaga með því að halda mikilvægu gagni frá Samkeppniseftirlitinu.
Í tilkynningunni frá MS kemur fram að fyrirtækið hafi starfað í samræmi við skýr ákvæði búvörulaga og að engin brot hafi verið framin.
„Var það niðurstaða fjölskipaðrar áfrýjunarnefndar samkepnismála, sem er lokaniðurstaða á stjórnsýslustigi og MS telur vera rétta,“ segir enn fremur.