Ekki vanhæf vegna tengsla við dómara

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Ófeigur

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Landsréttar frá 6. mars síðastliðnum, um að hafna beri kröfu ónafngreinds ákærða um að landsréttardómararnir Ásmundur Helgason og Ragnheiður Harðardóttir víki sæti í máli hans.

Ákærði krafðist þess að þau viku sæti, þar sem þau voru dómarar við Héraðsdóm Reykjavíkur á sama tíma og dómurinn sem hann áfrýjaði síðan til Landsréttar var kveðinn upp.

Þau komu þó ekki að málinu, en þar sem þau Ásmundur og Ragnheiður voru samstarfsmenn dómarans í máli ákærða taldi ákærði að fyrir hendi væru atvik eða aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni landsréttardómaranna í efa.

Niðurstaða Landsréttar, sem Hæstiréttur hefur nú staðfest, var á þá leið að kröfu ákærða sé hafnað þar sem héraðsdómari verði aldrei stöðu sinnar vegna vanhæfur til að fara með mál af þeirri ástæðu einni að það varði persónu, störf eða hagsmuni annars héraðsdómara.

Dómur Hæstaréttar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert