Kynna samninginn fyrir ljósmæðrum á morgun

Samninganefnd ljósmæðra á fundi í kjaradeilu ljósmæðra og ríkisins hjá …
Samninganefnd ljósmæðra á fundi í kjaradeilu ljósmæðra og ríkisins hjá ríkissáttasemjara í dag. Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður nefndarinnar, er önnur frá vinstri. mbl.is/Árni Sæberg

Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra, segist í samtali við mbl.is reikna með því að kynna samninginn, sem náðist í gær, fyrir félagsmönnum í Ljósmæðrafélagi Íslands um fimmleytið á morgun. Katrín Sif vonar að flestar uppsagnir meðal ljósmæðra verði dregnar til baka, verði samningurinn samþykktur. 

Strax að loknum fundi verður opnað fyrir rafræna atkvæðagreiðslu sem verður opin í um það bil 10 daga til þess að sem flestir félagsmenn nái að taka afstöðu.

Hæfileg bjartsýni

Katrín segist hæfilega bjartsýn á að ljósmæður samþykki samninginn en viðurkennir þó að eftir margra mánaða samningsferli sem tók tíma sem jafngildir fullri meðgöngu viti hún ekki nákvæmlega hvar ljósmæður standa.

Samningurinn sem náðist í gær mun gilda til 1. maí 2019 ef hann verður samþykktur af ljósmæðrum. Katrín Sif segir það jákvætt að samningurinn muni einungis gilda í tæpt ár vegna og að hún hefði ekki viljað gera samninginn til lengri tíma.

Katrín Sif vildi ekki tjá sig um efni samningsins en aðspurð hvort samninganefnd ljósmæðra hefði komist langt í þá átt að fá upprunalega kröfur sínar samþykktar að fullu þá neitar hún því.

„Nei í rauninni hefði ég viljað að okkar kröfum hefði verið mætt að fullu, mér fannst og hefur fundist frá upphafi, við leggja fram raunhæfar kröfur og rök fyrir okkar máli algjörlega þannig að í hjarta mínu finnst mér það hefði verið fullkomlega réttlætanlegt að okkar kröfum hefði verið mætt að fullu því við settum ekki óraunhæfar kröfur fram,“ sagði Katrín Sif jafnframt.

Uppsagnir hafa þegar tekið gildi

Hátt í 30 ljósmæður hafa sagt upp störfum á síðustu mánuðum. Ein ljósmóðir hefur þegar hætt og önnur mun hætta um næstu mánaðamót. Að auki munu uppsagnir nítján ljósmæðra taka gildi í júlí. Fleiri uppsagnir munu svo taka gildi í ágúst og september.

Katrín Sif segist vona að uppsagnirnar munu flestar verða dregnar til baka, verði samningurinn samþykktur, en segir útilokað að allar geri það enda hafi einhverjar ljósmæður nú þegar ráðið sig annars staðar.

Gagnrýnir samningsferlið

Katrín gagnrýndi samningsferlið og telur að hægt hefði verið að leysa deiluna fyrr og með betri hætti.

„Þetta hafa verið ótrúlega margir fundir í einhverjum þreifingum sem maður getur ekki séð að skili einu né neinu og á tímabili upplifði maður bara eins og það væri verið að safna fundartímum frekar en að það væri verið að reyna fá sem mest út úr hverjum fundi,“ sagði Katrín.

Hún bætti við og sagði, „mér finnst eiginlegar lausnamiðaðar samræður hafi í raun ekki byrjað fyrr en við fórum að hafa þessa vinnufundi fyrir fjórum vikum síðan, á öllu þessu 9 mánaða tímabili. Það er svona mín upplifun að þessi mál sé hægt að leysa á farsælli og skjótari hátt heldur en raunin er.“

Katrín segir aðkomu heilbrigðisráðherra hafa verið mikilvæga en hefði einnig viljað sjá forsætisráðherra og fjármálaráðherra beita sér í deilunni.

Hún tekur þó fram að sú afstaða hennar eigi ekki að varpa skugga á þá staðreynd að samningar hafi loks náðst. 

Ófá kjaftshögg og mikil reiði

Katrín telur að samningurinn og væntanlegur endir á kjaraviðræðum ljósmæðra komi til með að hafa gríðarleg áhrif á starf ljósmæðra.

„Það gerir það gríðarlega, maður finnur það óneitanlega alls staðar að þetta hefur mjög mikil áhrif og það er líka bara svo ofboðslega mikil reiði og það er svo langur tími sem hefur uppsafnað reiði hjá ljósmæðrum sem maður finnur magnast með hverri vikunni sem líður og svo hefur bæst reglulega í við hvert kjaftshöggið sem við höfum fengið og þau hafa ekki verið fá.“

„Við finnum mikið fyrir þessu innan stéttarinnar og erum farnar að þrá það að hafa ró í starfinu okkar og sátt í hjarta, það er orðið langur tími síðan það var,“ segir hún að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert