Algert bann flókið verkefni

Eftirlit með banninu utan hafnarsvæða yrði væntanlega hlutverk Landhelgisgæslu Íslands.
Eftirlit með banninu utan hafnarsvæða yrði væntanlega hlutverk Landhelgisgæslu Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

Ýmsar leiðir eru færar til að banna eða draga verulega úr notkun svartolíu í íslenskri lögsögu þó ekki væri farin sú leið sem stefnt er að í sáttmála ríkisstjórnarflokkanna um bann við notkun slíkrar olíu í efnahagslögsögu Íslands. Umhverfisstofnun, sem skilað hefur greinargerð um málið að beiðni umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, segir algert bann flókið verkefni og kostnaðarsamt þar sem siglingar bæði til og frá Íslandi og alþjóðlegar siglingar um íslenskt hafsvæði og þar gilda alþjóðlegar reglur.

Umhverfisstofnun bendir á aðrar leiðir til að banna eða draga verulega úr notkun svartolíu, m.a. með breytingum á reglum um skipaeldsneyti eða svæðisbundnum reglum. Telur stofnunin tvær leiðir fyrst og fremst færar: 

Bann við notkun svarolíu innan hafnarsvæða eða fjarða: Möguleiki er að settar verði kröfur um að bannað sé að nota svartolíu innan tiltekinna hafnarsvæða eða fjarða á Íslandi, segir í greinargerð stofnunarinnar. Rökin væru fyrst og fremst þau að standa vörð um loftgæði. Slíkt bann ætti ekki að stangast á við alþjóðalög og gilda jafnt fyrir öll skip sem koma inn á svæðið. Koma þyrfti á virku eftirlitskerfi þar sem hægt væri að fara um borð og sannreyna að ekki sé verið að brenna svartolíu. 

Bann við notkun svartolíu innan 12 sjómílna: Umhverfisstofnun telur að væntanlega stæðist slíkt bann lagalega samanber 21. grein Hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna. Ef slíkt bann er sett þarf að tryggja eftirlit með slíku banni. Eftirlit með banninu utan hafnarsvæða yrði væntanlega hlutverk Landhelgisgæslu Íslands og gæta yrði að því að fjármagn fylgdi því verkefni, segir í greinargerð Umhverfisstofnunar. 

Margvíslegur ávinningur

Umhverfisstofnun telur að helsti ávinningurinn af banni við notkun svartolíu við Íslandsstrendur væri: betri loftgæði, einkum þegar skip liggja í höfn; minni mengunarhætta við olíuleka; minnkun á losun brennisteins- og köfnunarefnisoxíða (SOx og NOx); og jákvæð ímynd fyrir Ísland. Kostnaður við bann fælist í notkun dýrara eldsneytis og þörf á auknu eftirliti og eftirfylgni með hertum reglum. Stofnunin áætlar að um 26% skipa sem sigldu í íslenskri efnahagslögsögu árið 2016 hafi notað einhvers konar tegund af svartolíu.

Í greinargerðinni er ítrekað að ef sett verði séríslensk ákvæði sem banna eða takmarka notkun svartolíu innan íslenskrar lögsögu sé mikilvægt að hægt verði að fylgja þeim eftir og því þarf að liggja fyrir hvernig eigi að framfylgja banninu og meta kostnað við eftirlitið. Fram kemur að ef um er að ræða skip sem sigla í gegnum íslenska efnahagslögsögu án þess að koma til hafnar hér á landi sé erfitt að framfylgja banni við notkun svartolíu. „Hvað varðar íslensk skip þarf að skoða hvort aðkoma Samgöngustofu eða annarra aðila er nauðsynleg til að fara um borð í skipin og kanna hvaða eldsneyti er notað. Ef með þarf er hægt að notast við dróna sem búnir eru tækjum til að mæla hlutfall koldíoxíðs og brennisteins í útblæstri og þannig sannreyna hvort verið sé að brenna svartolíu eða ekki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert