Biðu á annan tíma eftir sjúkrabíl

Þyrla Landhelgisgæslunnar lenti við Gullfoss nú síðdegis til að sækja …
Þyrla Landhelgisgæslunnar lenti við Gullfoss nú síðdegis til að sækja konu sem slasaðist alvarlega við fossinn. Ljósmynd/Baldur Gylfason

Ófremdarástand er á sjúkraflutningum í nágrenni Gullfoss, segir Ásdís Kristjánsdóttir, rekstrarstjóri Kaffi Gullfoss. Hún gagnrýnir að það hafi tekið sjúkraflutningamenn á annan tíma að koma á staðinn þegar kona slasaðist alvarlega við Gullfoss nú síðdegis.

Kon­unni, sem var þar á ferð með hópi ferðamanna, skrikaði fót­ur á klöpp­un­um við foss­inn og féll og rak höfuðið í klappirnar. Ásdís segir konuna hafa verið alvarlega slasaða, á því hafi ekki leikið vafi og það hafi verið ítrekað við sjúkraflutningamennina.

„Samt biðum við og biðum,“ segir hún. Sjálf fór Ásdís niður að fossinum með umbúðir til að reyna að sinna konunni. „Það var fullt af fólki að hjálpa, það voru Íslendingum á staðnum sem voru reiðubúnir að aðstoða, það vantar ekkert á það,“ segir hún.

Hlustuðu ekki á neitt

Sjálf hafi hún ætlað hún að reyna að flýta fyrir og láta sjúkraflutningamenn vita hversu alvarlega konan væri slösuð og m.a. láta þá vita að það þyrfti að bera hana uppeftir. „Þeir hlustuðu hins vegar ekki á neitt,“ segir Ásdís. Þyrlan hafi því ekki verið kölluð til fyrr en korteri eftir að sjúkraflutningamenn komu á staðinn.

Ásdís segist vera vön, hafa komið að fjölda slysa og sótt námskeið. „Okkur finnst þetta samfélagsleg ábyrgð okkar hér við fossinn og sinnum þessu alltaf og þessi kona var bara mjög illa á sig komin.“

Það hafi alveg hvarflað að sér að hafa samband við Hjálparsveitina í Reykholti þegar dróst að sjúkrabíllinn kæmi. „Þeir eru alltaf mjög fljótir til og fá alveg tíu í einkunn,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert