Kúkú ferðamenn sátu fastir í Krossá

Ferðamennirnir ætluðu sér yfir Krossá þar sem hún er þröng …
Ferðamennirnir ætluðu sér yfir Krossá þar sem hún er þröng og alveg ófær. Ljósmynd/Ferðafélag Íslands

„Traffíkin er ekki almennilega byrjuð en þetta er búið að koma nokkrum sinnum fyrir síðastliðna viku,“ segir Halla Einarsdóttir, skálavörður í Langadal í Þórsmörk. Ferðafélag Íslands deildi á dögunum myndum af fræknum ferðalöngum sem ætluðu sér yfir Krossá.

Það fór ekki betur en svo að þeir ákváðu að fara yfir þar sem áin er þröng og alveg ófær, með þeim afleiðingum að þeir festu húsbílinn sem þeir voru á. Af áletruninni á bílnum, „Dont‘ worry be sexy“, má ætla að þarna sé á ferð húsbíll frá fyrirtækinu Kúkú Campers.

Halla segir Íslendinga líka festa sig í ánni öðru hvoru, en að það séu aðallega ferðamenn sem vaða beint út í ána. Hún segir allan gang á því hvers vegna fólk festi sig. „Fólk er ekki á fjórhjóladrifnum bílum, á óbreyttum bílum og kann ekki að lesa í ána eða að sjá hvar vaðið er, hvar það á að fara yfir.“

Ferðamennirnir komu sér úr bílnum af sjálfsdáðum og upp á árbakkann. „Við förum oftast bara beint út á traktornum og drögum þá upp. Það vildi svo vel til að við vorum nokkur um daginn þegar þetta gerðist.“

Í færslu Ferðafélags Íslands um atvikið eru þeir sem ekki þekkja til hvattir til þess að hringja í skálaverði í Langadal og fá leiðsögn yfir Krossá. „Öllu neðar er fínt vað sem er vel fært jeppum,“ segir jafnframt í færslunni.

mbl.is