Leggja til að kjararáð verði lagt niður

Óli Björn Kárason er formaður efnahags- og viðskiptanefndar.
Óli Björn Kárason er formaður efnahags- og viðskiptanefndar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lög um kjararáð falla úr gildi 1. júlí nái frumvarp þess efnis fram að ganga. Með þessu á að koma í veg fyrir ósætti á vinnumarkaði og óskýrar launaákvarðanir æðstu embættismanna.

Í greinargerð með frumvarpinu frá meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar kemur fram að í janúar á þessu ári ákvað ríkisstjórnin, að höfðu samráði við heildarsamtök á vinnumarkaði, að skipa starfshóp um málefni kjararáðs. Átti hann að bera saman fyrirkomulag um ákvörðun launa hjá kjörnum fulltrúum, dómurum og embættismönnum í nágrannalöndum og leggja fram tillögur um breytingar.

Hópurinn skilaði skýrslu í febrúar en þar er að finna samanburð við nágrannalönd og tillögur að breyttu fyrirkomulagi og úrbótum.

Þar kemur fram að launaákvarðanir kjararáðs hafi ítrekað skapa ósætti og leitt til óróa á vinnumarkaði. Skort hafi gagnsæi um launaákvarðanir og raunveruleg laun. Bent er á að í nágrannalöndum séu ákvarðarnir um laun kjörinna fulltrúa nánast undantekningarlaust teknar einu sinni á ári. Endurskoðun fylgi skilgreindri launaþróun næstliðins árs. 

Starfshópurinn rökstyður að breytt fyrirkomulag ætti að reynast farsælla. Með því fyrirkomulagi að laun séu endurskoðuð eftir að launaþróun næstliðins árs liggi fyrir sé komið í veg fyrir ósamræmi milli launaþróunar æðstu embættismanna ríkisins og annarra.

Launaþróun verði jafnari, endurskoðun dragist ekki og hækkanir verða ekki í stórum stökkum. Laun æðstu embættismanna verða gagnsærri og komið er í veg fyrir óskýrar launaákvarðanir. 

Í fjármála- og efnahagsráðuneytinu er nú unnið að gerð frumvarps þar sem kveðið er á um að ákvörðun launa þeirra sem nú falla undir úrskurðarvald kjararáðs verði hagað með hliðsjón af þeim tillögum sem starfshópurinn um málefni kjararáðs lagði til í skýrslu sinni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert