Tvísýnt hvort ljósmæður samþykkja

Ljósmæður hafa viku til þess að greiða atkvæði um nýjan …
Ljósmæður hafa viku til þess að greiða atkvæði um nýjan kjarasamning, en atkvæðagreiðslu lýkur á miðnætti fimmtudags í næstu viku. mbl.is/Ómar Óskarsson

Samkvæmt nýjum kjarasamningi sem lagður er í dóm ljósmæðra fá þær rúmlega 4% launahækkun ásamt sextíu milljóna króna greiðslu sem ætluð er til leiðréttingar launa og annarra aðgerða. Stöð 2 greindi fyrst frá þessu, en engin þeirra ljósmæðra sem mbl.is ræddi við vildi staðfesta upplýsingarnar.

Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra, segist í samtali við mbl.is ekki vilja tjá sig um innihald samningsins að svo stöddu, en samningurinn var kynntur ljósmæðrum í gær. Hún segir að fjörugar umræður hafi orðið á fundinum og eru ljósmæður ekki á einu máli um samninginn.

Sagt að tjá sig ekki

Ljósmóðir sem mbl.is ræddi við segir skiptar skoðanir um samninginn meðal ljósmæðra og að almennt séu þær ekki endilega sannfærðar um hvort ætti að samþykkja eða hafna samningnum. Hún sagði einnig að ljósmæður hefðu verið beðnar um að tjá sig ekki um innihald samningsins fyrr en niðurstaða atkvæðagreiðslunnar lægi fyrir.

Ljósmóðirin vildi ekki staðfesta það sem hefur komið fram um rúmlega 4% launahækkun né aðra þætti samningsins. Sagði hún ljósmæður átta sig á því að það myndi koma verst niður á þeim sjálfum að vera að tjá sig mikið um málið á þessu stigi.

Ljósmæður taka ákvörðun um hvort skuli samþykkja eða hafna samningnum sem fyrir liggur í atkvæðagreiðslu sem hófst í dag, en atkvæðagreiðslunni lýkur á miðnætti fimmtudag í næstu viku. Katrín Sif segist ekki hafa tilfinningu fyrir því hvort samningnum verði hafnað eða hann samþykktur og í ljósi umræðna á fundi ljósmæðra segir hún að tvísýnt sé hver niðurstaðan verði.

„Það er ósk okkar að halda áfram að semja,“ segir Katrín, spurð um afleiðingar þess að samningnum yrði hafnað.

Fækkar ört í stéttinni

Fleiri ljósmæður hafa sagt upp starfi sínu vegna kjaradeilu þeirra við ríkið. Katrín Sif segist ekki hafa heyrt af ljósmæðrum sem hafa hætt við uppsögn sína eftir að samningurinn var kynntur.

Hún bendir jafnframt á að sumar ljósmæður hafi þegar ráðið sig annað og staðan er alvarleg þar sem þegar er mikill skortur á ljósmæðrum, ásamt því að fjórðungur ljósmæðra er á aldrinum 60-70 ára og styttist í að þær muni þurfa að hætta sökum aldurs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert