Banaslys á Vesturlandsvegi

Frá vettvangi í kvöld.
Frá vettvangi í kvöld. mbl.is/Valli

Einn lést og níu slösuðust í hörðum árekstri sem varð á Vesturlandsvegi skammt frá Enni á Kjalarnesi á áttunda tímanum. Níu sjúkrabifreiðar voru sendar á staðinn og fluttu sjö þeirra slasaða einstaklinga á slysadeild Landspítalans.

Tvær tækjabifreiðar voru enn fremur sendar á vettvang. Fjölmennt lið björgunarsveitarmanna, slökkviliðsmanna, sjúkraflutningamanna og lögreglu var á staðnum.

Fólkið var annars vegar í litlum sendiferðabíl og hins vegar í fólksbíl sem komu úr gagnstæðri átt. Ekki er hægt að greina frá líðan þeirra sem slösuðust að svo stöddu samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni.

Vesturlandsveginum var lokað í um tvo tíma frá Þingvallavegi og að Hvalfjarðarvegi á meðan slysinu var sinnt af viðbragðsaðilum. Mynduðust langar raðir af bifreiðum.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsaka slysið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert