Facebook tók stjórnina

Borghildur við eitt listaverka úr sýningunni Demoncrazy sem nú stendur …
Borghildur við eitt listaverka úr sýningunni Demoncrazy sem nú stendur yfir á Austurvelli. mbl.is/Árni Sæberg

Borghildur Indriðadóttir, listamaðurinn sem stendur á bakvið Demoncrazy á Listahátíð Reykjavíkur, varð fyrir ansi óþægilegri reynslu á dögunum þegar henni fannst sem Facebook tæki stjórnina á aðgangi hennar og greip hún til þess ráðs að gera aðgang sinn óvirkan.

Í samtali við mbl.is segir Borghildur að hún hafi ekki deilt myndum en að hún hafi til dæmis deilt hlekkjum úr bæklingi Listahátíðar. Skömmu síðar fékk hún þær upplýsingar frá Facebook að færslunni hefði verið eytt og fékk þau skilaboð að slíkt efni væri á skjön við samfélagsstaðla fyrirtækisins.

„Ég var ekki trekk í trekk að deila myndum en þeir hafa tengt mig við þetta verkefni,“ segir Borghildur og vitnar í Demoncrazy. Listahátíð stofnaði viðburð á Facebook þar sem fjölmörgum var boðið og setti inn mynd frá sýningunni sem fékk að standa nokkuð lengi að sögn Borghildar.

Öll „like“ voru allt í einu horfin

„Svo var henni eytt út og ég tók eftir því að búið væri að eyða öllum vinum mínum af Facebook. Ég skráði mig út og aftur inn. Svo sá ég að það vantaði einhverjar myndir, myndir sem tengdust ekki verkefninu heldur bara einhverjar vinkonumyndir. Svo var búið að eyða öllum athugasemdum við forsíðumyndirnar mínar, en „like-in“ voru þar ennþá.“

Borghildur skráði sig þá aftur út og inn af Facebook og þá voru öll „like“ einnig horfin af myndunum hennar. „Þetta var ógeðslega óþægilegt. Ég var að tala við mömmu símann og bað hana að kíkja á Facebook-ið mitt. Þá sagði hún að ég hefði verið að senda henni vinabeiðni sem ég var ekki að gera.“

„Mér leið bara eins og það væri einhver í tölvunni minni, á Facebook. Þetta var bara fáránlegt. Og af því mér leið eins og verið væri að taka stjórnina þá gerði ég aðganginn óvirkan.“

Gat ekki fylgst með viðbrögðum við gjörningnum

Þar sem beðið var um skýringu á því að verið væri að óvirkja aðganginn spurði Borghildur hvað væri í gangi og vildi fá skýringar, en hefur engar skýringar fengið enn. „Mig langar til þess að fá almennileg svör frá þeim af því þetta er óþægilegt að þau séu að stjórna öllu.“ Henni þykir skrýtið að hjá Facebook sé einhverskonar teymi sem ákveði hvað má vera þar inni og hvar ekki.

Borghildur segir leiðinlegt að hafa ekki getað fylgst með viðbrögðum við gjörningnum hennar á Facebook, auk þess sem henni sé boðið í ýmis brúðkaup og aðra viðburði í sumar sem hún viti núna ekki hvenær eru. „Það er líka ógeðslega erfitt að ná í mig núna,“ segir hún og jánkar því að Facebook sé líklega orðinn of stór hluti af lífi okkar allra.

Þó ætlar hún ekki að virkja aðgang sinn að nýju fyrr en hún fær einhver svör frá Facebook, en hún segir líka erfitt að finna út úr því hvert hún eigi að snúa sér.

Eitt verkanna úr sýningunni.
Eitt verkanna úr sýningunni. Ljósmynd/Magnus Andersen
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert