Virðist ekki standast stjórnarskrána

mbl.is/Hjörtur

„Vonandi gefst nægur tími til að kanna hvort gætt hafi verið fyllilega að ákvæðum stjórnarskrárinnar í samningaviðræðum ríkisins við viðsemjendur þess á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar,“ segir Arnaldur Hjartarson, aðjúnkt við lagadeild Háskóla Íslands, í aðsendri grein í laugardagsblaði Morgunblaðinu þar sem hann gerir að umtalsefni fyrirhugaða upptöku persónuverndarlöggjafar Evrópusambandsins hér á landi í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES).

Fram kemur í greininni að ekki verði betur séð en að upptaka löggjafarinnar feli í sér bæði framsal á framkvæmdavaldi og dómsvaldi til stofnana ESB án þess að Ísland eigi aðild að þessum stofnunum, enda utan sambandsins. Bent er á að á undanförnum árum hafi undirstofnunum ESB fjölgað. Ýmis dæmi megi finna úr nýlegri löggjöf ESB um að þeim hafi í auknum mæli verið falið beint eftirlit innan ríkja sambandsins og þeim jafnvel falið bindandi ákvörðunarvald.

„Þessi þróun felur tvímælalaust í sér áskoranir fyrir EES-samninginn, enda eru íslensk stjórnvöld bundin af stjórnarskránni þegar þau setjast að samningaborðinu í sameiginlegu EES-nefndinni með hinum EFTA-ríkjunum og ESB, segir Arnaldur. Kveðið sé á um það í frumvarpi, sem lagt hefur verið fram á Alþingi og ætlað er að innleiða persónuverndarlöggjöf ESB, að ekki sé stuðst við svonefnt tveggja stoða kerfi EES-samningsins við innleiðingu hennar.

Farið út fyrir tveggja stoða kerfið

Arnaldur Hjartarson.
Arnaldur Hjartarson.

Tveggja stoða kerfið felur í sér að þau aðildarríki EES sem standa utan ESB, það er Ísland, Noregur og Liechtenstein, eigi aðeins að lúta valdi stofnana sem haldið er úti af Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA) sem ríkin þrjú eiga aðild að. Arnaldur bendir á að ekki komi fram í frumvarpinu hví íslensk stjórnvöld hafi samþykkt að falla frá tveggja stoða kerfinu þannig að stofnun ESB fái vald til þess að veita íslenskri ríkisstofnun, það er Persónuvernd, fyrirmæli.

„Ætlunin með frumvarpinu virðist því vera sú að valdheimildir verði framseldar til stofnunar ESB, en að fulltrúum íslenska ríkisins verði ekki veittur atkvæðisréttur innan stofnunarinnar, ólíkt fulltrúum ríkja ESB. Íslenska ríkið verður þar með ekki fullgildur aðili þeirrar stofnunar. Þessari stofnun ESB verður í einhverjum tilvikum heimilað að gefa Persónuvernd bindandi fyrirmæli. Í þessu felst fyrirætlun um framsal framkvæmdavalds, segir ennfremur í greininni.

Komist sé að þeirri niðurstöðu í frumvarpinu að framsal framkvæmdavalds til stofnunar ESB á sviði persónuverndar sé lítils háttar í þröngt afmörkuðum tilvikum og bindi aðeins íslensk stjórnvöld en ekki einstaklinga eða fyrirtæki. Arnaldur bendir hins vegar á að viðurkennt sé í frumvarpinu að ákvörðun tekin af Persónuvernd sem tekin er í framhaldi af ákvörðun stofnunar ESB og byggð á niðurstöðu hennar kunni að hafa áhrif á einstaklinga og lögaðila á Íslandi.

Ísland beint undir vald dómstóls ESB

Hvað framsal dómsvalds varðar segir Arnaldur að ákvarðanir stofnunar ESB á sviði persónuverndar megi aðeins bera undir Evrópudómstólinn, æðsta dómstól sambandsins, sem Ísland eigi ekki aðild að. Ennfremur muni ætlunin með persónuverndarlöggjöf ESB vera að binda hendur íslenskra dómstóla þegar komi að lögmæti ákvarðana Persónuverndar sem tengist ákvörðunum stofnunar ESB. Þetta þýði framsal á dómsvaldi til dómstóls sem Ísland eigi ekki aðild að.

Fram komi í frumvarpinu að ekki sé hægt að girða fyrir að einstaklingur leiti til íslenskra dómstóla vegna stjórnvaldsákvörðunar Persónuverndar enda sé sá réttur stjórnarskrárvarinn. Arnaldur segir að taka megi undir þann skilning frumvarpshöfunda en í þeim orðum virðist jafnframt felast sá skilningur þeirra að ákvæði persónuverndarlöggjafar ESB, sem virðast ætlað að setja íslenskum dómstólum ákveðnar skorður, standist ekki að öllu leyti stjórnarskrána.

Ennfremur sé gefið í skyn í frumvarpinu að afgreiðsla málsins sé í andstöðu við ráðgjöf Stefáns Más Stefánssonar lagaprófessors um að stofnunum EFTA yrði falið að taka ákvarðanir gagnvart Íslandi, Noregi og Liechtenstein. Þá segir að persónuverndarlöggjöf ESB muni hafa víðtæk áhrif á íslenskt samfélag og Alþingi fái nú tækifæri til þess að ræða málið. Nægur tími verði vonandi til þess að skoða hvort gætt hafi verið fyllilega að ákvæðum stjórnarskrárinnar.

Fullkomin eftirgjöf gagnvart ESB

Ráðherrar í ríkisstjórninni hafa harðlega gagnrýnt kröfur ESB um að Ísland, Noregur og Liechtenstein samþykki að gangast beint undir vald stofnana sambandsins og að tveggja stoða kerfi EES-samningsins sé þannig sniðgengið. Þar á meðal Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. Þannig sagði Bjarni á Alþingi í febrúar að vegið að grunnstoðum EES-samningsins með kröfum um að vikið yrði frá tveggja stoða kerfinu.

Bjarni sagði einnig af því tilefni að Íslendingar stæðu frammi fyrir kröfum um að gangast undir vald stofnana ESB, sem Ísland ætti enga aðild að, í hverju málinu á fætur öðru. Kröfur ESB um að að Ísland færi beint undir vald stofnana sambandsins voru einnig ræddar á Alþingi í janúar 2013 í umræðu um frumvarp að nýrri stjórnarskrá þar sem meðal annars var rætt um ákvæði sem heimilaði framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana sem Ísland ætti ekki aðild að.

Vísaði Bjarni til greinargerðar með frumvarpinu þar sem segði að tilgangurinn væri að greiða fyrir eðlilegri þróun EES-samstarfsins. „Það er mín skoðun að hér sé ekkert annað á ferðinni heldur en fullkomin eftirgjöf gagnvart óþolandi kröfum Evrópusambandsins um að við framseljum til stofnana, sem við eigum enga aðild að og starfa á grundvelli ESB-sáttmála, ríkisvald og þannig verði horfið frá tveggja stoða kerfinu sem EES-samstarfið hefur ávallt byggst á,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert