Lamdi mann með hjóli

mbl.is/Hjörtur

Karlmaður á fertugsaldri var fluttur með sjúkrabíl á Landspítala eftir að rúmlega tvítugur karlmaður réðst á hann, barði með hjóli og rændi á göngustíg milli Engjateigs og Sigtúns í gær.

Rúv greindi fyrst frá málinu. Árásarmaðurinn var í hádeginu úrskurðaður í mánaðar gæsluvarðhald vegna málsins. „Þetta var alveg upp úr þurru,“ segir Guðmundur Páll Jónsson lögreglufulltrúi.

Fórnarlambið var á göngu með hund sinn um miðjan daginn í gær þegar skyndilega var ráðist á það. Árásarmaðurinn lét höggin dynja á honum, notaði hjól sitt sem barefli og skildi manninn eftir í blóði sínu.

Fórnarlambið náði að gera vegfaranda viðvart sem hafði samband við lögreglu og sjúkrabíl en árásarmaðurinn tók síma mannsins.

Guðmundur segir að lögregla kannist ágætlega við árásarmanninn og að hann hafi verið undir áhrifum þegar hann var handtekinn, um klukkustund eftir árásina í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert