Opnaði „taproom“ á Egilsstöðum

Friðrik Bjartur bak við barinn á Aski Taproom á Egilsstöðum.
Friðrik Bjartur bak við barinn á Aski Taproom á Egilsstöðum. mbl.is/Eggert

Friðrik Bjartur Magnússon, yfirbruggari brugghússins Austra á Egilsstöðum, og Páll Edwald vinur hans opnuðu í byrjun apríl bar í húsakynnum brugghússins, sem ber nafnið Askur Taproom.

Brugghúsið Austri setti sína fyrstu bjóra á markað í fyrra og hóf Friðrik störf þar sem yfirbruggari í febrúar í fyrra. Bruggverksmiðjan var sett upp með því móti að mögulegt væri að starfrækja bar í húsnæðinu og Friðrik segir að það hafi verið spennandi kostur frá upphafi.

„Það er skemmtilegra fyrir svona brugghús að vera með ákveðið svona „face“ út á við til að kynna vöruna. Sú hugmynd bara þróaðist og ég fékk Pál Edwald vin minn með mér í það að koma þessu á laggirnar. Úr því varð Askur Taproom,“ segir Friðrik, en nafn barsins er rétt eins og nafn brugghússins fengið úr norrænni goðafræði.

Nýr afþreyingarkostur fyrir ferðamenn

Viðtökurnar hafa að sögn Friðriks verið framar vonum hjá bæjarbúum og hann segist þakklátur fyrir það. Hann segist þó vera að stefna að því að ná til fleiri ferðamanna sem eigi leið um bæinn og bjóða upp á kynnisferðir um brugghúsið og að sjálfsögðu bjórsmakk í kjölfarið.

„Það er stefnan að auka við það sem er hægt að gera á Egilsstöðum, það er ekki mikið af afþreyingu á Egilsstöðum eins og er, það er hægt að labba og sjá einhverja fossa og fara í sund, en það er nú ekkert mikið meira. Við vorum að klára að græja bæklinga sem við vonandi fáum að dreifa á sem flestum gististöðum, því það er nú hagur allra að fólk hafi eitthvað að gera á Egilsstöðum, stoppi lengur og gisti frekar, heldur en að ferðamenn keyri bara í gegn,“ segir Friðrik.

Bruggverksmiðja Austra er í sama húsnæði og hinn nýlegi bar.
Bruggverksmiðja Austra er í sama húsnæði og hinn nýlegi bar. mbl.is/Eggert

Hann segir bjórinn frá Austra almennt hafa fengið góðar viðtökur, bæði hafi hann selst ágætlega í vínbúðunum og fengið góða dóma bjóráhugafólks. Nýjasta afurðin er wasabi-bjór, sem inniheldur wasabi sem ræktað er af fyrirtækinu Nordic Wasabi í gróðurhúsi norðan Fellabæjar á Fljótsdalshéraði og var hann kynntur á bjórhátíðinni á Hólum í Hjaltadal um nýliðna helgi.

Friðrik hefur gaman af því að prófa sig áfram með framandi hráefni í brugguninni, en fyrir síðustu jól setti Austri á markað greninálabjór, sem vakti nokkra athygli bjóráhugafólks. Friðrik hafði ekki mikla reynslu eða formlega menntun í bjórbruggun er hann hóf störf sem yfirbruggari Austra.

„Þá hafði ég aðallega bara heimabruggreynslu og lesið mér mikið til um þetta og haft mikinn áhuga, en eftir að ég byrjaði fór ég í Brewschool UK, sem er rétt hjá Sheffield í Englandi. Það var mjög fróðlegt og skemmtilegt námskeið sem ég fór á þar,“ segir Friðrik Bjartur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert