Bjartsýnn á fjárveitingu fyrir Kjalarnes

Tvö banaslys hafa orðið á Vesturlandsvegi það sem af er …
Tvö banaslys hafa orðið á Vesturlandsvegi það sem af er þessu ári. Vinna við breikkun vegarins í 2+1 veg mun þó væntanlega ekki hefjast fyrr en síðla næsta árs. mbl.is/Valli

Talsvert verður lagt í viðhald Vesturlandsvegar í sumar að sögn Jónasar Snæbjörnssonar, framkvæmdastjóra Vegagerðarinnar. „Hjólförin eru orðin of djúp,“ segir hann og því verði farið í slitviðgerðir.

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur samþykkti samhljóða á fundi sínum nú í morgun deiliskipulag fyrir veginn, en vinna við breikkun hans í 2+1 veg mun þó væntanlega ekki hefjast fyrr en síðla næsta árs.

Banaslys varð á Vesturlandsvegi á mánudagskvöld er fólksbíll og sendibíll lentu í árekstri. Einn maður lést og níu slösuðust, þar af fjór­ir al­var­lega. Tveir þeirra eru enn á gjör­gæslu­deild, en átta hinna slösuðu voru börn. Er þetta annað bana­slysið á Vest­ur­lands­veg­in­um það sem af er ár­inu, en einn maður lést í upp­hafi þessa árs. Varð það slys skammt frá þeim stað sem bíl­arn­ir rák­ust sam­an á mánu­dag.

Sigþór Magnússon, formaður Íbúasamtaka Kjalarness, gagnrýndi ástand vegarins í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. „Þarna er vegurinn illa merktur, og að okkar mati ranglega merktur. Þarna ætti að vera heil lína milli akreina sem bannar framúrakstur. Þarna ætti líka að vera riffluð miðlína eins og er annars staðar á Vesturlandsveginum, var gert fyrir nokkrum árum síðan og við erum ánægð með,“ sagði hann.

Vegagerðin skoði að setja heila línu milli akreina

Vegakaflinn þar sem bílarnir rákust saman er með rifflaða miðlínu, en skammt þar frá er miðlínan óriffluð á kafla. „Hún er riffluð að stórum hluta á Kjalarnesi,“ segir Jónas. Hvað heila línu milli akreina varðar, segir hann Vegagerðina hafa ákveðnar viðmiðunarreglur varðandi það hversu langt menn þurfi að sjá fram fyrir sig til að opið sé fyrir framúrakstur. „Þetta á að vera merkt samkvæmt þeim reglum,“ segir hann.

„Sums staðar erum við þó að herða á því að vara við framúrakstri eins og á Reykjanesbrautinni. Þar höfum við verið draga úr því að leyfa framúrakstur og setja frekar heilar línur.“ Mögulega sé ekki komin heil lína milli akreina á þessum stað og það sé þá örugglega eitthvað sem Vegagerðin muni taka til endurskoðunar.

Sævar Helgi Lárusson, rannsóknarstjóri á umferðarsviði rannsóknarnefndar samgönguslysa, sem fer með rannsókn banaslyssins, sagði í samtali við mbl.is í morgun er hann var spurður út í aðstæður vegarins á slysstað að vegurinn væri kominn á tíma „Hjólför eru orðin nokkuð djúp og vegmerkingar farnar að mást af eins og víða á vorin,“ sagði hann. Rannsóknarnefndin hafi þá ítrekað lagt það fram í lokaskýrslum sínum um slys sem verði á þessum slóðum að aðgreina þurfi akstursáttir.

Bjartsýnn á góðar fjárveitingar fyrir Kjalarnes

Jónas segir að undirbúningur að gerð 2+1 vegar muni ekki hefjast fyrr en deiluskipulagsvinnu fyrir svæðið lýkur, en sú vinna er nú á lokametrunum hjá Reykjavíkurborg og kveðst Jónas vonast til að framkvæmdavinna geti hafist seinni hluta næsta árs.

„Við höfum verið að vinna með Reykjavíkurborg í deiliskipulagsvinnunni og ég held að því ferli sé alveg að ljúka,“ segir hann. Búið er að auglýsa eftir athugasemdum og vinna úr þeim og umhverfis- og skipulagsráð borgarinnar samþykkti deiliskipulagið samhljóða á fundi sínum nú í morgun. Deiliskipulagið fer því næst til lokaafgreiðslu í borgarráði.

„Þá fer hönnunarundirbúningur af okkar hálfu á fullt,“ segir Jónas. Í sumar verði unnið að hringtorgi við Esjuberg og að því loknu hefjist vinna við hliðarvegi þegar ákvörðun liggi fyrir um hvað fækka eigi gatnamótum mikið. „Það verða engar framkvæmdir [við breikkun Vesturlandsvegar] fyrr en vonandi seinni hluta næsta árs,“ bætir hann hins vegar við og segir eftir það verða unnið að breikkun vegarins í áföngum.

Fjármögnun fyrir þeirri framkvæmd hefur þó enn ekki verið tryggð. Fram kom í máli Sigurðar Inga Jóhannssonar, sveitarstjórnar- og samgönguráðherra á opnum fundi um samgöngumál á Vesturlandi í janúar að vonast sé til þess að hægt verði að hefja fram­kvæmd­ir á næstu þrem­ur árum.

„Vegaáætlun er í endurskoðun og það er meiningin að það verði lögð fyrir tillaga að vegaáætlun fyrir árin 2019-2023 þegar þing kemur saman í haust,“ segir Jónas. „Ég er bjartsýnn á að það verði góðar fjárveitingar til Kjalarness, en það er þingsins að úrskurða um það,“ bætir hann við.

„Við höfum verið að bíða eftir að sjá hvað er langt í þessar framkvæmdir, en það er ekki hægt að bíða endalaust eftir því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert