„Ég er ekki lengur hrædd við hann“

Sonja Einarsdóttir á málþinginu í dag.
Sonja Einarsdóttir á málþinginu í dag. Ljósmynd/Aðsend

„Áreitið heldur áfram. Ég er ekki alveg laus við hann en ég er ekki lengur hrædd við hann,“ segir Sonja Einarsdóttir félagsfræðingur sem hélt erindi á málþingi sem Bjark­ar­hlíð og Kvenna­at­hvarfið stóðu fyr­ir í dag. Hún lýsti þar reynslu sinni af grófu heimilisofbeldi og segist hafa þagað í mörg ár yfir ofbeldinu sem hún sætti af hendi fyrrverandi eiginmanns síns, en sagði að nú hafi hún skilað skömminni. Lýsti hún því meðal annars hvernig maðurinn hefði ráðist á hana og barið hana um allan líkamann meðal annars með skaftpotti. Höggin hafi verið svo þung að skaftið hafi brotnað af pottinum.

Þann 4. október 2016 taldi Sonja botninum náð þar sem hún stóð úti á götu á nærbuxum og flíspeysu einum klæða eftir að fyrrverandi eiginmaður hennar hafði hent henni út af heimili þeirra eins og oft áður. Hún hringdi þó ekki á lögreglu, heldur hringdi hún á leigubíl til þess að komast í burtu frá ástandinu. Leigubílstjórinn gat sér til um hvernig í pottinn væri búið, sagði henni að hann væri björgunarsveitarmaður og spurði hvort hann mætti hringja á lögreglu fyrir hana. Sonja þáði það og þaðan fór hún í Kvennaathvarfið með börn sín þar sem hún dvaldi í 8 vikur. „Þetta var yndislegur tími. […] Þegar kona kemur úr svona aðstæðum, þá er þetta bara auðn.“

Kerfið ekki hliðhollt þolendum

Við tók erfiður tími hjá Sonju þar sem ofbeldismaðurinn reyndi ítrekað að ná sambandi við hana. Í kjölfarið var hann úrskurðaður í nálgunarbann, sem hann braut einnig ítrekað. Gefin var út ákæra á hendur manninum í september á síðasta ári, og í kjölfarið fékk Sonja lögskilnað með dómi og fullt forræði, tæpu ári eftir að hún leitaði sér aðstoðar. Hún stendur þó enn í málaferlum við manninn, þar sem hún kærði hann fyrir áreiti og hótanir í apríl. 

Sonja sagði í erindinu að kerfið á Íslandi sé þolendum heimilisofbeldis ekki hliðhollt. Þeir þurfi að fara í gegn um langt og strangt ferli til þess að fá lögskilnað, sitja sáttafundi hjá sýslumanni með gerandanum og fjárskipti séu mjög flókin, jafnvel þótt þau virðist einföld. Þá hafi fyrrverandi eiginmaður Sonju, milli þess sem hann sætti nálgunarbanni, ítrekað reynt að nálgast hana með ógnandi samskiptum. „Þetta er kerfið. Á þessu ári hef ég fengið 125 tölvupósta [frá fyrrverandi eiginmanni mínum]. Viljum við þetta kerfi? Breytum þessu. Það er okkar mannanna verk, að breyta kerfinu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert