Undrast að Kanada hafi ekki látið vita

Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Ómar

Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir undrast að kanadísk yfirvöld hafi ekki látið embætti hans vita af farþega, sem flaug frá Kænugarði til Toronto með viðkomu á Íslandi, sem greindist með mislinga.

Þurfa að fá smitið staðfest

Í frétt CBC kom fram að rannsókn standi yfir vegna mislingasmitsins sem var staðfest í síðustu viku. Þar segir að yfirvöld hafi sent út viðvör­un um að aðrir farþegar í viðkom­andi flug­um hafi mögu­lega smit­ast.

All­ir þeir sem ekki hafa verið bólu­sett­ir fyr­ir misl­ing­um eða hafa ekki fengið misl­inga eiga á hættu að smit­ast, segja heil­brigðis­yf­ir­völd í Toronto.

„Þetta á eftir að kanna betur. Það sem þeir eiga að gera í Kanada er að hafa samband og láta vita. Þeir hafa ekki gert það,“ segir Þórólfur, sem frétti fyrst af málinu á mbl.is.

Starfsfólk hans mun hafa samband við yfirvöld í Kanada í gegnum tengslanet Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar til að fá það staðfest að um mislingasmit hafi verið að ræða.  

Hann bætir við að í tilvikum sem þessum eigi yfirvöld viðkomandi lands að láta vita, svo að sóttvarnarlæknir geti verið í sambandi við Icelandair og látið farþegana sem voru um borð í vélunum vita af smitinu, sérstaklega Íslendingana.

„Við þurfum að fara í gang með þá vinnu. Við þurfum að staðfesta hvort þetta er rétt. Sú vinna er ekki hafin.“

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Æskilegt að Icelandair láti einnig vita

Aðspurður segir hann einnig æskilegt að Icelandair láti sóttvarnarlækni vita en hugsanlega hafi flugfélagið ekki áttað sig á því.

Þórólfur nefnir dæmi um mislingasmit fyrir tveimur til þremur árum í flugi frá Kanada til Bretlands með millilendingu á Íslandi. Íslendingur um borð smitaðist en sjúkdómurinn breiddist sem betur fer ekki út.

Mislingar er veirusjúkdómur sem er mjög smitandi og einkennist af hita og útbrotum um allan líkamann. Hann getur verið hættulegur og jafnvel valdið dauða.

„Það er mjög mikilvægt að allir séu upplýstir, þar á meðal farþegar, þannig að hægt sé að stoppa útbreiðslu á smiti eins fljótt og hægt er. Það er ekki gert nema fólk sé meðvitað um að það sé með sjúkdóminn ef það er að veikjast,“ segir Þórólfur.“

Flugvél Icelandair.
Flugvél Icelandair. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert