Farbann yfir Sindra staðfest

Sindri Þór Stefánsson.
Sindri Þór Stefánsson.

Landsréttur staðfesti í dag farbannsúrskurð Héraðsdóms Reykjaness yfir Sindra Þór Stefánssyni til 29. júní og enn fremur að honum verði gert að bera á sér búnað svo mögulegt verði að fylgjast með ferðum hans á sama tíma.

Verjandi Sindra fór fram á að úrskurðurinn yrði felldur úr gildi en til vara að farbanninu yrði markaður skemmri tími og að hann þyrfti ekki að bera áðurnefndan búnað. Til þrautavara krafðist hann þess að Sindri þyrfti ekki að bera búnaðinn. Fulltrúi ákæruvaldsins fór hins vegar fram á staðfestingu úrskurðarins.

Sindri er grunaður um aðild að þjófnaði á um 600 tölvum úr gagnaverum í byrjun ársins. Hann flúði úr fangelsinu að Sogni um miðjan apríl og var í kjölfarið handtekinn í Amsterdam.

Landsréttur staðfesti einnig í dag farbann yfir öðrum einstaklingi sem grunaður er um aðild að málinu. Farbannið gildir líkt og í tilfelli Sindra til 29. júní.

mbl.is