MDE vísaði verkfallsmáli BHM frá

Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM. mbl.is/Hari

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur vísað frá máli Bandalags háskólamanna (BHM) gegn íslenska ríkinu.

Þetta kemur fram í úrskurði dómstólsins og var niðurstaðan samþykkt einróma.

„BHM virðir niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu. Bandalagið telur að það hafi verið mikilvægt að fá úr því skorið hjá Mannréttindadómstólnum hvort Alþingi hafi með lagasetningu sinni brotið gegn Mannréttindasáttmála Evrópu og þeim mikilvæga rétti stéttarfélaga til að knýja á um gerð kjarasamninga með verkföllum,“ segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, í tilkynningu.

BHM kærði íslenska ríkið til dómstólsins fyrir hönd 18 aðildarfélaga sinna í desember árið 2015 og laut kæran einkum að því að setning laga sem bannaði verkfall félaganna og vísaði kjaradeilu þeirra við ríkið í gerðardóm hefði farið í bága við ákvæði 11. greinar dómstólsins um félagafrelsi.

Í tilkynningunni frá BHM segir að í ákvörðun dómstólsins sé í meginatriðum tekið undir niðurstöðu Hæstaréttar Íslands frá ágúst 2015 sem taldi að lagsetningin hefði verið nauðsynleg til að tryggja almannaheill, þ.e.a.s. rétt borgaranna til heilbrigðisþjónustu. Meðal þeirra aðildarfélaga BHM sem fóru í verkfall voru félög heilbrigðisstétta.

Í ákvörðun dómstólsins kemur fram að lagasetningin hafi ekki farið í bága ákvæði Mannréttindasáttamála Evrópu um félagafrelsi enda hafi aðildarfélög BHM í reynd notið tveggja meginþátta félagafrelsis samkvæmt sáttamálanum; réttarins til að reyna að sannfæra vinnuveitanda og réttarins til að gera miðlæga kjarasamninga. Þá tekur dómstóllinn undir það mat Hæstaréttar að lagasetningin hafi ekki farið í bága við meðalhófsregluna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert