Meintur samverkamaður Sindra í farbann

Maðurinn er í farbanni til 29. júní.
Maðurinn er í farbanni til 29. júní. mbl.is/Hjörtur

Landsréttur staðfesti farbann yfir karlmanni sem grunaður er um að vera samverkamaður í innbrotum í gagnaver í desember. Sindri Þór Stefánsson, sem flúði land í apríl, er einnig grunaður en áætlað er að verðmæti búnaðarins sem var stolið nemi rúmlega 200 milljónum króna.

Héraðsdómur Reykjaness úrskurðaði manninn í farbann síðasta föstudag. Maðurinn kærði úrskurðinn en Landsréttur staðfesti hann svo í dag og er maðurinn í farbanni til föstudagsins 29. júní.

Lögreglan telur að þrjú innbrot í gagnaver á tímabilinu 5. desember til 16. janúar tengist og að þau hafi verið þaulskipulögð. Maðurinn er grunaður um að hafa verið á vettvangi eins innbrotsins.

Fram kemur í greinagerð að maðurinn hafi frá lokum síðasta árs dvalið erlendis og ekki sinnt áskorunum vegna skýrslutöku fyrr en í morgun. 

Lögreglustjóri byggði kröfu sína á farbanni á því að maðurinn hafi dvalið síðustu mánuði erlendis og að hann hafi nýlega ráðið sig í vinnu þar. Einnig er vísað til þess að ætlaður samverkamaður hans hafi strokið úr gæsluvarðhaldi í apríl og flúið land þar sem hann hitti meðal annars manninn, segir í úrskurði héraðsdóms.

Landsréttur staðfesti einnig í dag far­banns­úrsk­urð Héraðsdóms Reykja­ness yfir Sindra til 29. júní. Honum er enn fremur gert að bera á sér búnað svo að mögu­legt verði að fylgj­ast með ferðum hans á sama tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert