RÚV sýknað af kröfum Adolfs Inga

Adolfi Ingi fær engar bætur frá RÚV vegna uppsagnar.
Adolfi Ingi fær engar bætur frá RÚV vegna uppsagnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hæstiréttur sýknaði í dag RÚV í máli sem Adolf Ingi Erlingsson, fyrrverandi íþróttafréttamaður, höfðaði vegna uppsagnar og eineltis. Snýr Hæstiréttur þar með við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem dæmdi RÚV í fyrra til að greiða honum 2,2 milljónir króna í bætur. RÚV áfrýjaði málinu til Hæstaréttar sem hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að forsendur uppsagnarinnar hafi verið málefnalegar. Adolf hafi verið sagt upp vegna aðhaldsaðgerða og að uppsögn hans hafi hans verið liður í hópuppsögn af því tilefni. Dómurinn fellst því ekki á að uppsögnin hafi verið ólögmæt og fjárkröfum Adolfs þar með hafnað.

Héraðsdómur hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið sýnt fram á að málaefnalegar ástæður hafi legið að baki uppsögninni og því hafi hún verið ólögleg.

Þegar áfrýjunin var tekin fyrir í Hæstarétti sagði lögmaður Adolfs að þrengt hafi verið að hon­um eft­ir að Krist­ín Hálf­dán­ar­dótt­ir tók við sem íþrótta­stjóri íþrótta­deild­ar RÚV árið 2009. Ad­olf hafði starfað hjá RÚV frá ár­inu 1992 og verið vel liðinn meðal sam­starfs­manna sinna.

Hann sagði að Adolf hefði mark­visst verið bolað burt eft­ir að Krist­ín tók við, til að mynda haldið frá lýs­ing­um kapp­leikja. Þessu mót­mælti lögmaður RÚV og benti á að Ad­olf hefði meðal ann­ars ann­ast lýs­ing­ar á Evr­ópu­mót­inu í hand­bolta 2010, EM í fót­bolta 2012 og verið aðallýs­andi RÚV á Ólymp­íu­leik­un­um 2012.

„Það ligg­ur fyr­ir að íþrótta­stjór­inn mælt­ist til þess að Ad­olf yrði sagt upp. Hann hafði þá kvartað und­an einelti henn­ar og kvartað vegna launa­mála. Hann tel­ur að þetta séu raun­veru­leg­ar ástæður þess að hon­um hafi verið sagt upp,“ sagði lögmaður Ad­olfs og bætti við að hann hefði aldrei fengið full­nægj­andi skýr­ing­ar á upp­sögn­inni.

Hæstiréttur og héraðsdómur voru sammála um að hvorki tilhögun lýsinga á íþróttakappleikjum né breytingar á starfstilhögun gætu falið í sér einelti samkvæmt reglugerð um aðgerðir gegn einelti á vinnustað.

RÚV er því sýknað í málinu en málskostnaður, bæði í héraðsdómi og Hæstarétti, er felldur niður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert