Segir ljósmæður í þröngri stöðu

Áslaug Valsdóttir, formaður Ljósmæðrafélags Íslands.
Áslaug Valsdóttir, formaður Ljósmæðrafélags Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

„Við erum á núllpunkti og þurfum að byrja aftur og sjá hvað er hægt að gera,“ segir Áslaug Valsdóttir, formaður Ljósmæðrafélags Íslands, um stöðuna í kjaraviðræðum ljósmæðra og ríkisins. Ljósmæður kolfelldu í gær kjarasamning sem skrifað var undið við ríkið 29. maí.

Áslaug segir að hún hafi orðið fyrir miklum vonbrigðum með niðurstöðu atkvæðagreiðslu um samninginn. 63% ljósmæðra greiddu atkvæði gegn samningnum en 33% samþykktu. Kjörsókn var 87%. „Þetta eru 63% sem fella og maður verður að taka því. En ég hefði aldrei skrifað undir þetta ef ég hefði haldið að við kæmumst lengra,“ segir Áslaug.

Hún segir að það fari ekki milli mála að ljósmæður séu orðnar langþreyttar á ástandinu og segir hún að ekki hafi verið kveðið nógu skýrt á um hvernig fjármagnið frá velferðarráðuneytinu, sem kynnt var inn í samninginn sem var undirritaður í lok síðasta mánaðar, verði nýtt. „Það er ekki nógu gegnsætt hvað hver og ein myndi fá. Þær voru ekki tilbúnar til að samþykkja að það væru óvissufaktorar í þessu.“

Þá segir Áslaug að ljósmæður séu í mjög þröngri stöðu og er ekki bjartsýn á að samningaviðræður muni gangi hratt fyrir sig. „Ég les þannig í aðstæður að við erum í þröngri stöðu. Það er að koma sumar og ég sé ekki fyrir mér að það veðri stíft fundað til að ná samningnum að sumri til.“

Samninganefndir ljósmæðra og ríkisins hafa verið boðaðar á stöðufund hjá ríkissáttasemjara 20. júní. „Þar verður farið yfir stöðuna, ég hef aldrei lent í þessu áður þannig að ég veit ekki alveg hvað fer þarna fram en þetta er kallaður stöðumatsfundur,“ segir Áslaug.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert