Taldi niður eftir sex Esjur

Þor­berg­ur Ingi Jóns­son tók þátt í Mt. Esja Ultra-hlaupinu í …
Þor­berg­ur Ingi Jóns­son tók þátt í Mt. Esja Ultra-hlaupinu í fyrsta skipti í dag og gerði sér lítið fyrir og sló brautarmetið um klukkutíma. Ljósmynd/Þórarinn Sigurbergsson

Þegar flestir voru að nudda stírurnar úr augunum í morgunsárið og fá sér fyrsta kaffibollann var utanvegahlauparinn Þor­berg­ur Ingi Jóns­son nýbúinn að ljúka við að hlaupa ellefu ferðir upp Esjuna í Mt. Esja Ultra-hlaup­inu.

Hlaupinu er skipt upp í þrjú erfiðleikastig og var Þorbergur ræstur út á miðnætti ásamt fimm öðrum hlaupurum í lengstu vegalengdinni, 77 kílómetrum með 6.600 metra hækkun, og höfðu hlaupararnir 18 klukkutíma til að ljúka hlaupinu, alls ellefu ferðum.

Þorbergur hafði sett sér markmið um að hlaupa undir tíu klukkustundum og gerði hann gott betur en það þegar hann kom í mark rétt eftir klukkan hálftíu í morgun á tímanum 9 klukkustundum, 39 mínútum og 49 sekúndum og bætti þar með brautarmet Friðleifs Friðleifs­son­ar um klukku­tíma.

„Ég er svo heppinn að ég er nýbúinn að eignast barn þannig ég hef aðlagast því að sofa lítið,“ segir Þorbergur, en hann viðurkennir að hann hafi verið frekar þreyttur þegar hann lagði af stað. „Þetta er erfitt, það er erfiðara að halda fókus, en maður bara gerir þetta.“

Þorbergur Ingi lagði af stað á miðnætti og rúmum níu …
Þorbergur Ingi lagði af stað á miðnætti og rúmum níu klukkustundum síðar hafði hann lokið við 11 ferðir upp og niður Esjuna. Ljósmynd/Þórarinn Sigurbergsson

Þreyta og þjáning í tíu klukkutíma

Þorbergur segir að hlaupið í nótt hafi verið andleg áskorun, sérstaklega þar sem endurtekningarnar eru svo margar, eða ellefu talsins. „Ég fór of hratt af stað. Ég þurfti svolítið að díla við það síðustu fimm Esjurnar að detta ekki niður, en það gekk mjög vel í rauninni. Eftir sex Esjur var maður að telja niður,“ segir Þorbergur.

Hann segir að tilfinningin að koma í mark eftir löng hlaup sé alltaf jafngóð. „Ég var búin að hlaupa í þreytu og þjáningu í tíu tíma og það var því æðislegt að koma í mark. Það gekk allt upp og setti flott brautarmet sem ég er mjög ánægður með.“

Á leiðinni í sterkasta utanvegahlaup í heimi 

Hlaupið í dag er liður í und­ir­bún­ingi Þor­bergs fyr­ir Ultra Trail du Mount Blanc (UTMB) í ág­úst sem er stærsta utanvegahlaup í heimi. Hlaupaleiðin er 170 kílómetrarí kringum Mount Blanc með 10.000 metra hækkun. Þorbergur er að fara að taka þátt í hlaupinu í fyrsta sinn en hefur áður tekið þátt í systurhlaupi þess, svokölluðu CCC-hlaupi, sem er 101 kíló­metri að lengd með 6.100 metr­a hækkun.

Hlauparar fá tvo sólarhringa til að ljúka við UTMB-hlaupið og hefur Þorbergur sett sér markmið um að klára á innan við sólarhring og vera meðal tíu efstu hlaupara. „Hvað styrkleika varðar er þetta stærra en heimsmeistaramót og í raun er þetta mekka langhlauparana. Það er erfitt að komast inn í hlaupið og flestir utanvegahlauparar hafa þetta stóra markmið að komast í þetta hlaup og það er flottast í heimi að vinna þetta hlaup, burtséð frá öllum öðrum hlaupum,“ segir Þorbergur.

Hlauparar þurfa að hafa náð vissum fjölda af alþjóðlegum hlaupapunktum til að eiga rétt á að vinna sér inn sæti í hlaupinu og svo er dregið úr hópi þeirra sem uppfylla inntökuskilyrðin. Heppnin var með Þorbergi í ár.

Þorbergur Ingi tók þátt í systurhlaupi UTMB-hlaupsins í fyrra þar …
Þorbergur Ingi tók þátt í systurhlaupi UTMB-hlaupsins í fyrra þar sem hann hljóp 101 kílómetra við Mt. Blanc. Ljósmynd/Aðsend

Hleypur 20 tíma á viku og sefur í súrefnistjaldi

Undirbúningur fyrir hlaupið felst fyrst og fremst í að „safna hæðarmetrum“, en með því er átt við að hlaupa upp og niður í fjall­lendi. Þorbergur telur að hann æfi um 15-20 tíma á viku og eru hlaupatúrarnir mis langir, allt frá 90 mínútum í átta klukkutíma. „Ég brölti mikið upp og niður fjöll og síðan reyni ég, þar sem þetta er háfjallahlaup, að sofa í súrefnistjaldi í einn mánuð á ári til að aðlaga mig betur,“ segir Þorbergur.

Að hans mati eru keppnir eins og hlaupið í dag bestu æfingarnar. Auk þess skiptir máli að undirbúa sig andlega og það gerir hann með því að taka krefjandi langar æfingar. „Svo stimplar maður sig þannig inn að maður reynir að hafa jákvæðnina að leiðarljósi í öllu. Þetta verður erfitt, það er alltaf þannig, þú verður bugaður á einhverjum tímapunkti, en þú verður bara að halda áfram.“

Í Mt. Esja Ultra-hlaupinu hafa þátttakendur 18 klukkutíma til að …
Í Mt. Esja Ultra-hlaupinu hafa þátttakendur 18 klukkutíma til að hlaupa 11 ferðir upp og niður Esjuna, alls 77 kílómetra með 6.600 metra hækkun. Þor­berg­ur Ingi Jóns­son

Bæjarfjallið er uppáhaldsfjallið

Aðspurður hvort hann eigi sér uppáhaldsfjall á Íslandi segir Þorbergur að svo sé ekki en er svo fljótur að nefna Súlur í heimabænum Akureyri. „Á góðum sumardegi finnst mér rosa gaman að fara á Súlurnar, það er bæjarfjallið.“

Þorbergur mun nýta tímann í júní og júlí til að hlaupa upp og niður „súlurnar“ eins og hann orðar það og fleiri fjöll á Íslandi en hann mun svo halda til Chamonix á landamærum Frakklands, Sviss og Ítalíu við rætur Mount Blanc þar sem hann mun kynnast hlaupaleiðinni og venjast loftslaginu. Það verður fróðlegt að fylgjast með þessum fremsta utanvegahlaupara landsins og sjá hvort að hann nái settum markmiðum. „Ég hef alla vega trú á að ég geti þetta,“ segir Þorbergur. 

Þor­berg­ur Ingi Jóns­son er meðal bestu utanvegahlaupara í heimi.
Þor­berg­ur Ingi Jóns­son er meðal bestu utanvegahlaupara í heimi. Ljósmynd/Þórarinn Sigurbergsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert