Umræðu um veiðigjöld hvergi nærri lokið

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Hari

Umræðu og afgreiðslu á frumvarpi um breytingu á veiðigjöldum er hvergi nærri lokið. Þetta er meðal þess sem kom fram í máli Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, í Vikulokunum á Rás 1 í morgun. Afgreiðslu frumvarpsins var frestað fram á haust og var stór liður í að þingflokkarnir náðu samkomulagi um þinglok í gær.

Áslaug sagði frumvarpið í raun vera leiðréttingu en ekki lækkun á veiðigjöldum. „Gjaldið í dag er reiknað þannig að það er tekið þrjú ár aftur í tímann. Það hlýtur að vera markmið okkar að gjaldið fylgi afkomu greinarinnar því annars er forsendan fyrir afnotagjaldinu brostin. Við teljum rosalega mikilvægt að leiðrétta veiðigjaldið. Umræðan hefur verið á skjön við hvernig frumvarpið var raunverulega,“ sagði Áslaug.  

„Þetta lítur út eins og enn önnur leiðrétting fyrir þá sem eiga meira,“ sagði Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, sem var gestur þáttarins ásamt Áslaugu, Ágústi Ólafi Ágústssyni, þingmanni Samfylkingarinnar og Rósu Björk Brynjólfsdóttur, þingmanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. 

„Mér finnst þetta mál sýna ótrúlega forgangsröðun, að ætla að lækka veiðigjald korteri fyrir þinglok,“ sagði Ágúst Ólafur, sem benti jafnframt á að eitt prósent af ríkistekjunum komi frá veiðigjöldum. „Við teljum að þessi grein geti lagt meira af mörkum.“

Veiðigjöld stórpólitískt mál í íslensku samfélagi

Rósa Björk sagði að frumvarpið hefði betur komið frá sjávarútvegsráðherra sjálfum í stað nefndarinnar. Hún hrósaði hins vegar Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra fyrir hennar aðkomu að málinu. „Þessi lausn sem hefði alltaf átt að vera upphaflega afgreiðslan, í rauninni bara tæknileg framlenging á veiðigjöldunum, en allt annað er stórpólitískt mál og hefur verið stórpólitískt mál í íslensku samfélagi um áratugaskeið, hversu mikið útgerðin á að borga fyrir nýtingu á sameiginlegum auðlindum okkar allra.“

Nýtt frumvarp um veiðigjöld verður kynnt á Alþingi í haust. Lögin haldast óbreytt til áramóta.„Þetta er að sjálfsögðu ekki búið þar sem við erum að sjá samdrátt í greininni,“ sagði Áslaug.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert