„Við erum ofboðslega lánsöm“

Karlmaður á fertugsaldri lést í árekstrinum.
Karlmaður á fertugsaldri lést í árekstrinum. mbl.is/Valli

„Ferðin endaði ekki alveg eins og við gerðum ráð fyrir. Við lentum í árekstri á leiðinni í bæinn aftur og vorum öll send með sjúkrabíl á bráðamóttöku Landspítalans,“ skrifar Sigrún Elísabeth Arnardóttir, tíu barna móðir, sem lenti var ökumaður annarrar bifreiðarinnar á Kjalarnesi síðastliðinn mánudag.

Sigrún, sjö af börnum hennar og eitt systurbarn voru á leiðinni frá Akranesi úr fjölskylduheimsókn þegar slysið varð.

Ökumaður hinnar bifreiðarinnar lést en Sigrún og öll börnin voru flutt á gjörgæslu. Þau eru öll útskrifuð nema ein dóttir Sigrúnar.

Flestir komnir heim

Við erum ofboðslega lánsöm og þakklát fyrir að ekki fór verr og flestir komnir heim, misklamberaðir en á lífi,“ skrifar Sigrún og bætir við að Myrra þurfi aðeins lengri tíma til að ná sér og muni ná sér að fullu.

Myrru er haldið sofandi í öndunarvél en Sigrún segir að hún sé farin að anda sjálf og vélin sé til stuðnings og öryggis. „Það er byrjað að létta svæfinguna hjá henni og var hún þónokkuð að hreyfa sig og rumska í dag en vaknaði ekki. Það er gert ráð fyrir að það muni taka 3 - 4 daga að vekja hana og mun það alveg fara eftir henni hve mörg skref verða tekin áfram og hvort þurfi að taka einhver til baka eða ekki,“ skrifar hún.

Ansi mikið lagt á lítið hörkutól

Kjálkinn á Myrru er víraður saman en hún kjálkabrotnaði í slysinu. Sigrún skrifar að öndunarvélin sé í gegnum barkann og því heyrist engin rödd. Stúlkan þurfi því að takast á við það eftir svæfinguna að vakna og mun ekki get sagt hvernig henni líður.

Ég veit að hún er ofboðslega mikið hörkutól en þetta er ansi mikið sem lagt á litla skottu sem ætlaði bara rétt að kíkja eftir leikskóla á nýfædda frænda,“ skrifar Sigrún og bætir við að þær mæður verði á Landspítalanum næstu sex vikur á meðan Myrra þurfi að vera með vírana.

Hún segist vera óendanlega þakklát en viðurkenni að sveiflast á milli þess að vera að springa úr þakklæti og hágráta hvað dóttirin þurfi að ganga í gegnum.

Færsluna má sjá í heild sinni hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert