15 í samstarf um #metoo aðgerðir

Tuttugu fulltrúar fimmtán félaga, samtaka og stofnana á fundi í …
Tuttugu fulltrúar fimmtán félaga, samtaka og stofnana á fundi í morgun. Ljósmynd/Aðsend

„Við sáum að það yrði erfiðara að gera raunverulegar breytingar til framtíðar á atvinnumarkaði ef allir væru að vinna hver í sínu lagi,“ segir Hulda Ragnheiður Árnadóttir, fulltrúi Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) um málefni #metoo og framkvæmdastjóri Viðlagatrygginga Íslands, en fulltrúar FKA og fjórtán annarra samtaka, stofnana og félaga hafa ákveðið að hefja með sér samstarf til að fylgja eftir þeirri vitundarvakningu sem orðið hefur í kjölfar #metoo-byltingarinnar.

Hulda Ragnheiður segir fulltrúa BSRB, ASÍ, Kvenréttindafélags Íslands og FKA hafa hist á óformlegum fundi fyrir um mánuði síðan. „Þá kviknaði þessi hugmynd að prófa að boða til víðtæks fundar. Okkur til mikillar undrunar þá mættu ekki bara fulltrúar frá öllum félögum sem við boðuðum, heldur mættu allir á fundinn sem við boðuðum.“

Auk BSRB, ASÍ, Kvenréttindafélagsins og FKA munu taka þátt í samstarfinu Alþýðusamband Íslands, Bandalag háskólamanna, Bjarkarhlíð – miðstöð þolenda ofbeldis, Jafnréttisstofa, Kennarasamband Íslands, Kjara- og mannauðssýsla ríkisins, Mannauður – félag mannauðsfólks, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins, Sálfræðingafélag Íslands, Vinnueftirlit ríkisins og VIRK starfsendurhæfingarsjóður.

„Fólk hefur talið ástæðu til þess að setja þetta í forgang núna þegar sumarfrí er að fara af stað. Það var greinilega mikill vilji hjá öllum til þess að taka þátt í þessu og markmiðið er í rauninni að finna á hvaða sviði við getum orðið sterkari saman. Auðvitað halda síðan allir áfram að vinna að verkefnum hver fyrir sig, en það eru þættir sem snúa sérstaklega að fræðslumálum og leiðbeiningum til stjórnenda um hvernig eigi að setja stefnur og reglur og hvernig eigi að búa til aðgerðaráætlanir sem við getum samnýtt krafta okkar í.“

Fræðslumál sett í forgang

Hulda Ragnheiður segir fjölda góðra hugmynda hafa komið upp á fundinum og að nú sé unnið að því að forgangsraða og ákveða hvað verði farið af stað með í haust. „Við erum sannfærð um að fræðslumálin fá forgang. Það var alveg afgerandi, fræðsla og leiðbeiningar til stjórnenda. Það vilja allir gera eitthvað en fólk veit ekki nákvæmlega hvað það á að gera, hvað það er sem mun hjálpa. Svo er þetta líka öflugur hópur sem getur búið til þrýsting á aðgerðir sem hefur reynst erfitt fyrir einstaka hópa að fá fram, til dæmis fylgni við ákveðin lög sem eru nú þegar til staðar.“

Hulda Ragnheiður segir mikilvægt að taka umræðuna í kjölfar #metoo á næsta stig, öllum sé orðið ljóst að hlutirnir séu ekki í lagi. „Það verður að halda áfram með verkefnið.“

Jón Fannar Kolbeinsson frá Jafnréttisstofu hélt erindi á fundinum.
Jón Fannar Kolbeinsson frá Jafnréttisstofu hélt erindi á fundinum. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert