18 mánuðir fyrir stórfellt fíkniefnabrot

mbl.is/Ófeigur

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í dag karlmann frá Venesúela í 18 mánaða fangelsi fyrir stórfellt fíkniefnabrot, með því að hafa staðið að innflutningi á rúmlega kílói af kókaíni ætluðu til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. Maðurinn flutti fíkniefnin til landsins innvortis í líkama sínum sem farþegi með flugi frá Zurich í Sviss til Íslands þann 8. febrúar síðastliðinn.

Játaði hann brot sitt skýlaust fyrir dómi og samkvæmt framlögðu sakavottorði hafði hann ekki gerst sekur um refsiverðan verknað. Við skýrslutöku hjá lögreglu kvaðst maðurinn ekki vera eigandi fíkniefnanna, en hann hafi tekið að sér að flytja þau til landsins gegn þóknun.

Frásögn mannsins var ekki dregin í efa og tekið var tillit til þess að hann var samstarfsfús við rannsókn málsins. Ekki var hins vegar hægt að líta framhjá því að hann stóð að innflutningi á miklu magni sterkra fíkniefna. Með hliðsjón af því var talið 18 mánaða fangelsisdómur væri hæfileg refsing, en til frádráttar kemur gæsluvarðhald frá 9. febrúar síðastliðnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert