92% taka þátt í lesfimiprófum

Börn að lesa. Mikil aukning hefur verið í þátttöku grunnskóla …
Börn að lesa. Mikil aukning hefur verið í þátttöku grunnskóla í lesfimiprófum milli ára. Mynd úr safni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Mikil aukning hefur verið í þátttöku grunnskóla í lesfimiprófum milli ára. Þetta sýna niðurstöður úr lesfimiprófum fyrir skólaárið 2017-2018, en um 92% grunnskólabarna tóku þátt í prófunum það árið. Árið áður var hlutfallið 75%.

Er þátttaka í lesfimiprófum nú í vor umfram væntingar, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá  Menntamálastofnun, og þykir hún vísbending um að skólar og sveitarfélög leggi vaxandi áherslu á að efla læsi. Prófið felur í sér að skólarnir meta lesfimi hjá börnunum, en í henni felst færni sem byggir á lestrarnákvæmni, leshraða og hrynrænum þáttum tungumálsins.

Rúm tvö ár eru nú frá því að öll sveitarfélög landsins undirrituðu Þjóðarsáttmála um læsi og lýstu yfir vilja til að setja sér læsisstefnu og fara í aðgerðir til að efla læsi. Hafa mörg þeirra þegar sett  sér læsisstefnu og fylgja henni eftir með aðgerðum sem hafa skilað góðum árangri.

„Nú er verið að hanna matstæki í stafsetningu, vef með fjölbreyttum aðferðum til að efla læsi og vinna við gerð lesskilningsefnis fyrir miðstigið er einnig komin á rekspöl. Þá er í gangi ráðgjöf til skóla og sveitarfélaga, nýtt verkefni um snemmtæka íhlutun á leikskólastigi fer af stað í haust, þróunarvinna vegna ritunarkennslu er hafin og fleiri verkefni eru í farvatninu,“ segir í fréttinni.

Ekki er þó að sjá marktækar framfarir í lestri íslenskra grunnskólanemenda milli ára enn sem komið er, enda taka umbætur í menntun taka tíma að mati Menntastofnunnar, sem telur góðar líkur á að „þær aðgerðir sem skólar og sveitarfélög hafa ráðist í muni skila sér í bættum árangri til lengri tíma litið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert