Fékk 5 ára dóm fyrir nauðgun

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdin manninn í fimm ára fangelsi fyrir kynferðisbrot …
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdin manninn í fimm ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn tveimur konum. mbl.is/Ófeigur

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmdt 46 ára karlmann í fimm ára fangelsi fyrir nauðgun. Er maðurinn, Erol Topal, fundinn sekur um kynferðisbrot gegn tveimur konum og var í öðru tilfellinu um einkar hrottalega og langvarandi árás að ræða.

Fyrra atvikið átti sér stað í júlí 2015, þegar Erol kom óboðinn á heimili þeirrar konu.  Lýsti konan atvikum þannig að hann hefði elt sig óboðinn heim þessa nótt. Hann hafi síðan sent sér SMS-skilaboð og ekki hætt fyrr en hún opnaði fyrir honum. Er inn var komið hrinti hann henni í sófa, dró bol hennar niður fyrir brjóst, káfað á henni og sleikti og stakk fingri í leggöng hennar.  Hann hætti ekki þó að hún segði honum ítrekað að hún vildi þetta ekki og reyndi að ýta honum af sér, sparka í hann og bíta. Erol, sem neitar sök í málinu, hafði sig þó á brott er henni tókst að ná í síma.

Seinna atvikið átti sér stað í maí 2016 á heimili Erols og var sú árás einkar hrottaleg. Þar nauðgaði hann konu sem hann hafði deilt með leigubíl úr miðbænum, beitti hana ofbeldi og ólögmætri nauðung, meðal annars með því að slá hana og kýla ítrekað í andlit og líkama.

Konan kvaðst hafa drukkið þrjá drykki þessa nótt og segir ólíkt sér að detta út eins og gerst hefði. Hún muni lítið eftir leigubílaferðinni, en rankað við sér er hann var að reyna að stinga getnaðarlim sínum upp í munn hennar. Hann hafi einnig reynt að þröngva sér til samræðis um leggöng með því að þvinga fótleggi hennar í sundur og lét ekki af háttseminni þó að hún berðist um og reyndi að öskra eftir hjálp.

Staðfestu nágrannar mannsins að þeir hafi heyrt öskur og hróp í rúman klukkutíma áður en þeir kölluðu til lögreglu, en þeir töldu í fyrstu að hljóðin kæmu frá bíómynd.

Á upptökum úr myndavélabúnaði lögreglu sést ákærði koma til dyra og konan í miklu uppnámi í svefnherbergi íbúðarinnar, sýnilega bólgin í andliti. Sjálf lýsir hún líðan sinni eftir atvikið sem mjög slæmri, hún sé m.a. ófær til kynlífsmaka, einmana og treysti ekki fólki. Þá óttist hún ákærða.

Erol neitar einnig sök í þessu máli, en dómstóllinn taldi ótrúverðuga þá skýringu hans að konan hefði sjálf veitt sér áverkana þessa nótt. Þá hafi hann ekki gefið trúverðuga skýringu á því af hverju hún hafi linnulítið hrópað á hjálp hafi hann ekkert á hlut hennar gert. 

Var hann því dæmdur í fimm ára fangelsi, sem og til að greiða fyrra fórnarlambinu eina milljón króna í miskabætur og því síðara 1,8 milljónir kr. að viðlögum vöxtum og dráttarvöxtum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert