Níu bílar skemmdir

mbl.is/Eggert

Níu bílar eru skemmdir eftir slysið sem varð á Reykjanesbraut í morgun, að sögn slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu.

Fjórir tilkynntu um ofsaakstur

Fjórir hringdu í lögregluna og tilkynntu um ofsaakstur ökumanns um Reykjanesbrautina, samkvæmt Ómari Smára Ármannssyni aðstoðaryfirlögregluþjóns.

Bifreiðinni var ekið áleiðis til Hafnarfjarðar frá Reykjanesbæ. Fyrst var tilkynnt um að henni hafi verið ekið á ofsahraða fram hjá Vogum og aftur tvívegis eftir að henni var ekið fram hjá álverinu.

Fjórða símtalið barst í framhaldinu um að bifreiðinni hafi verið ekið til móts við Vallahverfið í Hafnarfirði.

Bifreiðin rakst svo á aðra bifreið vestan við hringtorgið við Lækjargötu í Hafnarfirði, skammt frá N1.

Að sögn Ómars Smára virðist sem umferðarteppa sem myndast gjarnan á morgnana í brekkunni skammt frá hringtorginu hafi hægt á ökumanninum.

Talið er að sá sem var fluttur á slysadeild sé ekki alvarlega slasaður.

Ekkert kemur fram um að bifreiðinni hafi verið ekið á móti umferð, að sögn Ómars Smára, en mbl.is hafði það eftir heimildum í morgun. 

Tilkynning frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu:

„Reykjanesbraut í Hafnarfirði er enn lokuð til norðurs frá Ásbraut að Lækjargötu vegna umferðarslyss sem varð þar rétt fyrir klukkan 8 í morgun.

Vinnu lögreglu á vettvangi er ekki lokið, en vonast er til að hægt verði að opna fyrir umferð á nýjan leik eftir hálftíma eða svo.“

Uppfært kl. 10.30:

Búið er að opna fyrir umferð um Reykjanesbraut á nýjan leik, að sögn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert