Öll tilboðin undir kostnaðaráætlun

Nýbyggingar rísa við Landspítalann við Hringbraut. Fjögur tilboð bárust í …
Nýbyggingar rísa við Landspítalann við Hringbraut. Fjögur tilboð bárust í fullnaðarhönnun nýs rannsóknarhúss við spítalann. mbl.is/Ómar Óskarsson

Öll fjögur tilboðin sem bárust í fullnaðarhönnun nýs rannsóknarhúss Landspítalans við Hringbraut voru undir kostnaðaráætlun. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Nýja Landspítalanum (NLSH), en búið er að opna tilboð vegna fullnaðarhönnunar rannsóknarhússins sem er hluti af heildaruppbyggingu nýs Landspítala við Hringbraut.

Kostnaðaráætlun verksins hljóðaði upp á kr. 670.890.000 og námu tilboðin frá þeim fjóru hönnunarteymum sem stóðust kröfur sem gerðar voru í forvalinu á bilinu 70-80% af kostnaðaráætlun.

Hæst var tilboð Grænuborgar (Arkstudio ehf., Hnit verkfræðistofa, Landmótun, Raftákn, Yrki arkitektar), sem hljóðaði upp á kr. 536.371.200 eða 79,9% af kostnaðaráætlun.

Tilboð Mannvits og Arkís arkitekta hljóðaði upp á 512.904.960 kr. eða 76,4% af kostnaðaráætlun, Tilboð Verkís og TBL nam 488.181.600 kr. sem er 72,7% af kostnaðaráætlun og lægst var tilboð  Corpus3 (Basalt arkitektar, Hornsteinar arkitektar, Lota ehf og VSÓ ráðgjöf) og nam það 477.286.560 kr. eða 71,1% af kostnaðaráætlun. Öll eru verðin án virðisaukaskatts.

„Opnun tilboða í hönnun á nýju rannsóknahúsi er stór áfangi í Hringbrautarverkefninu.  Bygging nýs rannsóknahúss mun breyta miklu fyrir Landspítala en þá verður öll rannsóknastarfsemi sameinuð á einn stað,“ er haft eftir Gunnari Svavarssyni, framkvæmdastjóra NLSH, í tilkynningunni. 

Gert er ráð fyrir að öll rannsóknarstarfsemi Landspítalans sameinist í rannsóknahúsinu, m.a. meinafræði, rannsóknakjarni, klínísk lífefnafræði og blóðmeinafræði, frumuræktunarkjarni, frumumeðhöndlun, erfða- og sameindalæknisfræði, ónæmisfræði, rannsóknastofa í gigtsjúkdómum og sýkla og veirufræði.  Einnig verður Blóðbankinn þar til húsa, en rannsóknahúsið mun tengist meðferðarkjarna og öðrum byggingum spítalans með sérstökum sjálfvirkum flutningskerfum, tengigöngum og tengibrúum. Á húsinu verður þá þyrlupallur sem tengdur er meðferðarkjarnanum.

Áætlanir NLSH gera ráð fyrir að nýtt rannsóknahús verði tekið í notkun á árinu 2024.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert