Rútur halda vöku fyrir íbúum

Íbúar í Eskihlíð bíða eftir viðbrögðum frá borginni.
Íbúar í Eskihlíð bíða eftir viðbrögðum frá borginni. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mér sýnist stefnan hjá þeim vera að koma sér sem best fyrir og vera búin að framkvæma sem mest áður en þetta fær einhverja meðferð hjá borginni,“ segir Stefán Pálsson, sagnfræðingur og íbúi við Eskihlíð.  Rútufyrirtækið Airport Direct hefur hreiðrað um sig í húsnæði við Skógarhlíð 10, svo að segja í bakgarði fjölbýlishússins þar sem hann býr.

Stefán segir umrætt hús í Skógarhlíðinni hafa hýst margt í gegnum tíðina. „Þetta var einhvern tímann tónlistarskóli og síðar var Háskólinn með sjúkraþjálfunardeild þarna.“ Fyrir nokkrum misserum var gistiheimili opnað í húsinu undir nafninu Bus Hostel og því til viðbótar hverfisbar. 

Stefán Pálsson.
Stefán Pálsson. mbl.is/RAX

„Svo kaupa aðilar þann rekstur upp og draga úr hótelstarfseminni og loka barnum,“ segir Stefán en fyrir tæpum mánuði hófu nýir eigendur að nýta bílastæðið sem söfnunarstæði fyrir rútufyrirtækið Airport Direct, sem er í þeirra eigu. Ferðamenn eru sóttir upp að hótelum í miðbænum á smárútum, sem stoppa í Skógarhlíðinni þar sem farþegum er safnað saman í stærri rútur og keyrðir til Keflavíkur, í Bláa lónið eða hvert sem för er heitið.

„Ansi ófyrirleitið“

„Þetta gerðist eiginlega bara yfir eina helgi,“ segir Stefán. Það sem áður hafi verið friðsælt svæði með fyrirferðarlítilli atvinnustarfsemi sé nú umskipunarhöfn með tilheyrandi skarkala, rútubakkhljóðum og fleira, öllum stundum. Aðspurður segir Stefán umstangið raska svefnró margra í húsinu, þótt hann viðurkenni að hann sofi flest af sér og myndi sjálfsagt gera þó að húsið brynni til grunna.

Stefán segir umstangið raska svefnró margra íbúa.
Stefán segir umstangið raska svefnró margra íbúa. mbl.is/Kristinn Magnússon

Steininn tók úr um helgina þegar framkvæmdir fóru af stað við nýja innkeyrslu inn á rútustæðið nýtilkomna. Tré úr borgarlandinu var fjarlægt og kantur jafnaður við jörðu til að rýma fyrir rútunum. Stefán segir að í deiliskipulagi sé húsið ætlað undir stofnanir, þjónustu eða léttan iðnað og ekki að sjá að samgöngumiðstöð falli undir þá skilgreiningu. Sá gjörningur sé ansi ófyrirleitinn.

Þá séu ýmsar kröfur gerðar til samgöngumiðstöðva og sú starfsemi sé leyfisskyld. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur er með til skoðunar hvort rútumiðstöðin falli undir skilgreiningu á samgöngumiðstöð, en Stefán segir slíkt barnalega augljóst enda tali fyrirtækið sjálft um stoppistöðina sem Reykjavík Main Terminal á Facebook-síðu sinni.

Eskihlíðarblokkin frá hinni hliðinni.
Eskihlíðarblokkin frá hinni hliðinni. Eyþór Árnason

Íbúar leituðu fljótt til borgarinnar og hafa beðið eftir viðbrögðum þaðan um tíma. „Borgin er meðvituð um þetta en hún er varfærin,“ segir Stefán. Á meðan geri fyrirtækið það sem það vill. Slíkt sé sérstaklega spælandi í ljósi þess að húsfélagið stendur sjálft í framkvæmdum. „Við erum að vinna í að breyta bílaplaninu okkar. Ekkert stórvægilegt, bara aðeins að malbika planið og breyta lögun pínulítið.“ Því fylgi mikið ferli, með umsókn um byggingarleyfi og fleira.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert