Uppbætur á lífeyri verði skattfrjálsar

Fjármálaráðherra ber að leggja fram frumvarp fyrir 1. nóvember
Fjármálaráðherra ber að leggja fram frumvarp fyrir 1. nóvember Haraldur Jónasson/Hari

Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að leggja fram frumvarp þess efnis að uppbætur á lífeyri, samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, verði ekki skattskyldar.

Þingsályktunartillaga þess efnis var samþykkt á Alþingi í dag, en hún var lögð fram að frumkvæði þingmanna Flokks fólksins. Auk þingmanna Flokks fólksins var einn þingmaður hvers þingflokks meðal flutningsmanna og var hún samþykkt með 56 atkvæðum mótatkvæðalaust, en 7 voru fjarstaddir.

Ólafur Ísleifsson
Ólafur Ísleifsson mbl.is/Haraldur Jónasson

Samkvæmt lögum um félagslega aðstoð frá árinu 2007 er heimilt að greiða lífeyrisþega uppbót vegna kostnaðar sem ekki fæst greiddur með öðrum hætti, ef sýnt þykir að hann geti ekki framfylgt sér án þess. Sú uppbót telst til tekna og er af henni greiddur skattur, auk þess sem hún kann að skerða aðrar bætur, svo sem vaxta- eða húsnæðisbætur.

Við þinglok nú fól samkomulag meiri- og minnihluta í sér að hver flokkur í minnihlutanum fékk að tryggja einu máli framgöngu og var þetta mál Flokks fólksins.

Núverandi löggjöf mistök

Ólafur Ísleifsson, þingmaður Flokks fólksins, segir að þingflokkurinn hafi í upphafi vetrar lagt fram frumvarp í þessum anda. Eftir að hafa tekið við umsögnum frá, meðal annars, Ríkisskattstjóra hafi þótt ljóst að frumvarpið þyrfti meiri undirbúning. Úr varð að fela fjármálaráðherra að leggja fram frumvarp á næsta þingi.

Ólafur segist hafa fundið fyrir þverpólitískri samstöðu í málinu og sýni hún sig í því að allir flokkar hafi átt fulltrúa meðal flutningsmanna. „Í hvert sinn sem málið ber á góma eru viðbrögðin eins. Það er engu líkara en mistök hafi verið gerð við lagasetninguna [árið 2007],“ segir Ólafur og vísar til þess að uppbótin, sem ætluð er að bæta lífeyrisþegum upp tilfallandi kostnað, svo sem við gleraugnakaup, skuli vera skattlögð sem tekjur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert